21/11/2024

Lenging á grjótvörn við Hólmavíkurhöfn boðin út

Hólmavíkurhöfn, grjótgarður, smábátahöfn, öldubrjótur

Hafnarstjórn Strandabyggðar hefur óskað eftir tilboðum í að lengja eystri grjótvarnargarð Hólmavíkurhafnar um 30 metra. Markmiðið með framkvæmdinni er að skapa betra skjól í smábátahöfninni í óveðrum. Verkinu skal lokið eigi síðar en 31. október, en frestur til að skila inn tilboðum í verkið er til kl. 14:00 þriðjudaginn 28. júlí. Útboðsgögn verða seld hjá Vegagerðinni og á skrifstofu Strandabyggðar frá og með 14. júlí. Helstu verkþættir eru upptekt og endurröðun á um 500 m³ af grjóti við garðsendann og að vinna efni í námu og byggja garð úr um 5200 m³ til viðbótar. Áður stóð til að setja fljótandi öldubrjót þarna við enda varnargarðsins, en fallið hefur verið frá því. Þessi breyting hefur nokkurn viðbótarkostnað í för með sér fyrir Hólmavíkurhöfn og samþykkti sveitarstjórn Strandabyggðar vegna þessa breytingar á framkvæmd nokkurra annarra verkefna sem fyrirhuguð voru á árinu 2015.

Verkefnum sem slegið var á frest eða framlag lækkað til á fundi sveitarstjórnar þann 7. júlí, til að mæta áætluðum kostnaði við grjótvarnargarðinn að upphæð 7,3 millj. eru eftirtalin:
– Gangstéttir við Hafnarbraut 19 og Þróunarsetur, alls 2 milljónir
– Glerveggur í Hnyðju, á fyrstu hæð Þróunarseturs, alls 2 milljónir
– Öldubrjóturinn sem áður var fyrirhugaður í höfninni, alls 1,5 milljón
– Réttir, nýbygging, framlag lækkað um 550 þúsund
– Ljósritunarvél og prentara á skrifstofu sveitarfélagsins, alls 850 þúsund
– Málun á gluggum í Þróunarsetri, alls 400 þúsund

Þetta kemur fram á vefjunum www.vegagerdin.is og www.strandabyggd.is.