22/11/2024

Leitarhundar æfa á Steingrímsfjarðarheiði

Húsnæði Dagrenningar á HólmavíkFélag Leitarhunda Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verður með vetrarnámskeið á Steingrímsfjarðar-heiði næstu vikuna sem hefst á morgun og stendur til 29. mars. Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík tekur þátt í skipulagningu námskeiðsins en 22 menn eru skráðir á námskeiðið með 17 hundateymi. Þátttakendur eru allsstaðar af landinu og tveir dómarar frá Bretlandi. Eitt hundateymi frá Hólmavík tekur þátt í námskeiðinu en í því eru Kolka sem er Labrador hundur og Úlfar Hentze. Meðal annarra þátttakanda er Strandamaðurinn Höskuldur Birkir Erlingsson á Blönduósi ásamt leitarhundi sínum.

Að sögn Úlfars Hentze eru þessi námskeið afar mikilvæg til að þjálfa hunda og leitarmenn í björgunarstörfum og halda þeim í formi, en það eru u.þ.b. 8 ár síðan þetta námskeið var haldið á Ströndum síðast. Þá vildi svo heppilega til að þyrla frá Landhelgisgæslunni tók þátt í námskeiðinu sama dag og refaskytta á svæðinu varð fyrir því óláni að slasa sig illa.

Það er stíf dagskrá framundan hjá þátttakendum námskeiðsins sem hefst árla hvers morguns og stendur fram á kvöld. Engu að síður munu þeir skoða sig um á svæðinu og fara meðal annars á Galdrasafnið á Hólmavík og í heitu pottana á Drangsnesi. Dagskrá námskeiðsins er að finna á heimasíðu Leitarhundafélagsins á slóðinni www.snerpa.is/hundar.

Björgunar- og leitarhundar á Íslandi eru aðallega af Labrador, German Shepherd eða Border Collie kyni.