22/12/2024

Leitað að hugvísindamönnum á Vestfjörðum

 
Nýverið var dr. Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur ráðinn í prófessorsstarf Jóns Sigurðssonar, en Guðmundur starfar við Háskóla Íslands. Eitt af verkefnum hans er að styðja við rannsókna- og fræðslustarf á Vestfjörðum og þess vegna vill hann kynnast hugvísindafólki sem búsett er á Vestfjörðum og hefur rannsóknarhugmyndir sem það hefur áhuga á að skoða nánar, með mögulegt samstarf í huga. Fundur verður haldinn í Háskólasetri Vestfjarða föstudaginn 28. september, kl. 13:30 og möguleiki á að taka þátt í símfundi.

Hugvísindafólk á Ströndum og Vestfjörðum er hvatt til að taka þátt í fundinum, kynna hugmyndir sínar og ræða möguleika á samstarfi og samvinnu við aðra fræðimenn á hugvísindasviði.

Þeir sem standa að tilkynningunni eru dr. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor, Valdimar J. Halldórsson, staðarhaldari á Hrafnseyri, Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði og dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á Vestfjörðum, Bolungarvík.