22/12/2024

Leiklistarnámskeið á Hólmavík á nýju ári

Í janúar verða haldin leiklistarnámskeið á Hólmavík fyrir þrjá aldurshópa á vegum Leikfélags Hólmavíkur, ef þátttaka fæst. Markmiðið með öllum námskeiðunum er að þau séu fyrst og fremst skemmtileg og sýna fram á að allir geti  leikið og haft gaman af. Námskeiðin geta bæði nýst þeim sem enga reynslu hafa og lengra komnum. Á öllum námskeiðunum verður farið í skemmtilega leiki sem stuðla að framförum hvers og eins. Þátttakendum verður skipt í þrjá aldurshópa, en Smári Gunnarsson verður leiðbeinandi.

Aldurshóparnir eru:

5.-7. bekkur: Leikur og trúður. Farið verður yfir grunnæfingar í trúðleik og mikilvægi þess að hafa gaman af því að leika og leika sér. Tilgangurinn er að komast að því hversu gaman það getur verið að leika, því það er ekkert öðruvísi en að leika sér þótt það séu áhorfendur að fylgjast með.

8.-10. bekkur: Leikur og karakter. Farið verður yfir ýmsar leiðir til að búa til karakter og grunnæfingar í spuna. Enn fremur hvernig er hægt að nota karakter sem þú hefur skapað þegar þú leikur senu.

Fullorðnir: Leikur og leikhússport. Við munum skoða æfingar sem opna sköpun fólks í spuna, förum yfir spunaleiki og lærum stíla og aðferðir í leikhússporti.

Hámark 12-14 í hverjum hóp.

Námskeiðin verða með svipuðu sniði þótt að áherslur verði mismunandi, þannig að ef það eru mjög margir á elsta ári eða yngsta ári í einhverjum hópnum þá er hægt að breyta því og færa þá upp eða niður um hóp svo það verði jafnara í hópum.
 
Námskeiðið stendur frá 2. janúar til 8. janúar. Skráning í síma 867-3164 (Stína) eða á stina@holmavik.is og í síma 8653838 (Sabba) eða á salbjorg@holmavik.is. Verð: kr 4000 fyrir börn og unglinga og kr 5000 fyrir fullorðna.