22/12/2024

Leikfélagið les og les

Leikfélag Hólmavíkur er þessa dagana að vakna úr dálitlum áramótadvala. Ætlunin er að setja upp stórt leikverk, frumsýna það á Hólmavík um páskana og sýna það síðan víðar um Strandir, en Trékyllisvík og Drangsnes hafa verið fastir viðkomustaðir Leikfélagsins í gegnum árin. Til þess að þetta megi heppnast sem best hefur stjórn Leikfélagsins nú blásið til samlestrar á leikriti í félagsheimilinu á Hólmavík þriðjudaginn 11. janúar næstkomandi kl. 20:00.

Þar verða lesin eitt eða tvö af þeim verkum sem koma til greina sem uppsetning vetrarins, en stjórn Leikfélagsins hefur undanfarið unnið að því að finna hentug leikrit. Samkomur sem þessar eru rómaðar fyrir gaman, glens, gott kaffi og jafnvel sælgæti og því eru allir Strandamenn velkomnir og hvattir til að mæta, hvort sem þá dreymir um frama á leiklistarsviðinu eður ei.

Búið er að ráða leikstjóra, en það er hinn góðkunni leikari Skúli Gautason. Skúli hefur tvisvar áður leikstýrt hjá Leikfélaginu og auk þess haldið námskeið.

Vefur Leikfélags Hólmavíkur er www.holmavik.is/leikfelag.