22/12/2024

Leikfélagar teknir tali

Jörundur, Laddie og Charlie Brown Félagar í Leikfélagi Hólmavíkur stíga á svið í Félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld og frumsýna Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason í leikstjórn Skúla Gautasonar. Leikritið fjallar um ævintýri Jörunds hundadagakonungs og hans kappa. Á Íslandi lenda þeir í allskyns ævintýrum og hitta þar fyrir undarlega þjóð sem býr yfir undarlegu tungumáli og mörgum enn undarlegri siðum. Yfir tuttugu leikarar og hljóðfæraleikarar taka þátt í sýningunni sem undirbúa sig af krafti í dag, hver með sínu lagi. Sýningin hefst kl. 20:30 og ennþá er nóg af lausum sætum. Tíðindamaður strandir.saudfjarsetur.is sló á þráðinn til nokkurra þeirra og innti þá eftir því hvernig þeir höguðu undirbúningnum síðustu klukkustundirnar fyrir frumsýningu.

Gunnar Melsted – Jörundur hundadagakonungur
Mér finnst rosalega gott að fara í langan göngutúr fyrir fumsýningu og ef mér tekst að leggja mig eftir hann, þá er ég bara góður og tilbúinn í slaginn. Ég hugsa um eitthvað allt annað en leikritið eða hlutverkið mitt í gönguferðinni og reyni að tæma hugann sem best. Ég reyni einnig að fara í sund en það geri ég reyndar eins oft og ég get ef einhver verkefni sem þarf að leysa eru framundan.

Ester Sigfúsdóttir – skækja, hefðarfrú og Íslendingur
Frumsýningardagar eru nokkuð venjulegir dagar hjá mér. Ég undirbý mig ekkert sérstaklega og það er ekkert sérstakt sem ég geri, ekki fyrr en ég er mætt í leikhúsið og er að setja mig í stellingar. Ég reyni bara að hafa það eins huggulegt og ég get og láta mig hlakka til.

Salbjörg Engilbertsdóttir – Mary
Ég hef enga sérstaka hefð á frumsýningardegi, nema helst að eiga lítið móment með sjálfri mér eftir að ég er mætt í leikhúsið. Ég svaf lengur í morgun og reyndi að hvíla mig, svo reyni ég að drekka mikið af vatni. Annars er þetta bara venjulegur dagur sem verður undirlagður í hverskyns stjórnunarstörfum í leikfélaginu. Það þarf að undirbúa húsið og sjá til þess að allir ytri þættir sýningarinnar gangi upp líka.

Sigurður Atlason – Charlie Brown og kaðaltæknir
Ég tryllist yfirleitt í eldhúsverkum á frumsýningardag. Vaska upp og þríf það í hólf og gólf. Það er mjög furðulegt þar sem mér leiðast eldhúsverk alveg ægilega. En ég verð líka svo ofsakátur þegar það er búið að ég verð nánast til í hvað sem er. Svo reyni ég að slaka á eins og ég mögulega get og hugsa sem minnst um handritið eða það sem framundan er. Eftir að ég er kominn í leikhúsið þá dett ég í mínar eigin hugsanir og reyni að halda einbeitningu fram á lokastundu.

Stefán Jónsson – hljóðfæraleikari á kránni Jokers & Kings
Ég reyni að slaka á og reyna að vera andlega tilbúinn til að takast á við hlutina. Ég hef enga sérstaka aðferð við það, reyni bara að hugsa um hið daglega líf og tekst svo á við verkefnið þegar þar að kemur.

Úlfar Hjartarson – Íslendingur, matrósi og sérlegur lífvaktari Jörundar
Ég reyni að taka því rólega yfir daginn og slaka á. Það er alltaf einhver fiðringur í mér yfir daginn og kvöldið framundan mér ávallt ofarlega í huga. Ég fer gjarnan á afvikinn stað rétt áður en sýningin hefst og hugsa um það sem framundan er, geri jafnvel talæfingar og hressi upp á tunguna og andlitsvöðvana.

Svanhildur Jónsdóttir – Íslendingur og hefðarfrú
Það er ekkert sem ég viðhefst beinlínis á frumsýningardag vegna hans. Ég reyni að hafa það rólegt yfir daginn og reyni að ná mér niður til að geta náð mér upp aftur. Ég reyni bara að hafa góðan fókus á það sem framundan er. Það er mér mikilvægt á kvöldinu fyrir frumsýningardag að ganga vel og vendilega frá öllum búningunum mínum í búningsklefanum, svo ég geti gengið nákvæmlega að öllu í réttri röð þegar þar að kemur.

Jón Gústi Jónsson – Laddie
Á seinustu vikum æfingatímabilsins les ég aldrei handritið heldur læri textann á æfingum. Á sjálfum frumsýningardegi les ég handritið yfir í hljóði og reyni að skanna það svolítið til að festa textann. Annars reyni ég að slaka á yfir daginn, sit og hugsa um eitthvað skemmtilegt, gjarnan með góðri tónlist.

Eysteinn Gunnarsson – Sir Alexander Jones, íslendingur og skoskur ferðamaður í Leith
Nei, ég undirbý mig ekki neitt. Ég er gjörsamlega laus við það, læt hverjum degi nægja sína þjáningu.