22/12/2024

Leikfélag í startholunum

Nú hefur verið ákveðið hvaða leikrit verður lesið á samlestri Leikfélags Hólmavíkur sem verður haldinn í Félagsheimilinu þriðjudagskvöldið 11. janúar kl. 20:00. Það er hið sívinsæla og skemmtilega gamanleikrit Deleríum Búbónis eftir þá bræður Jónas og Jón Múla Árnasyni. Hér með eru allir sem hafa áhuga á því að vera með í uppsetningu vetrarins hvattir til að mæta. Þetta eru þó ekki einu fréttirnar af Leikfélagi Hólmavíkur því ýmislegt annað er í bígerð.

Þar ber helst að nefna að kvikmyndagerðarmennirnir Lárus Ýmir Óskarsson og Jón Karl Helgason hafa um nokkurt skeið haft hug á því að taka upp heimildarmynd um uppsetningu á leikriti hjá litlu leikfélagi úti á landi. Hafa þeir síðustu misserin einkum horft til Leikfélags Hólmavíkur sem og þorpsins sjálfs sem heppilegan vettvang fyrir slíka kvikmyndagerð.

Aðspurður segist Lárus Ýmir ekki enn vera viss um að af þessu verkefni verði þetta árið en þeir félagar halda þó enn í vonina um að það verði hægt. Skortur á fjármagni mun vera helsti ásteytingarsteinninn. Það er þó vonandi að af þessu geti orðið því það yrði óneitanlega gaman að virða fyrir sér ankringislæti félaga í Leikfélagi Hólmavíkur á hvíta tjaldinu.