Það er nóg um að vera hjá Leikfélagi Hólmavíkur þessa dagana. Samlestrar eru nú reglulega til að velja gott gamanleikrit fyrir haustið og allir eru velkomnir að taka þátt í því. Samlestur verður t.d. miðvikudaginn 31. ágúst í Hnyðju kl. 19:30. Miðvikudaginn 7. september kl. 20:30 verður svo haldinn aðalfundur leikfélagsins í Félagsheimilinu á Hólmavík. Á dagskrá verða venjuleg aðalfundarstörf, auk þess sem vetrarstarfið framundan verður kynnt og rætt, en það verður líflegt að vanda. Allir eru velkomnir í þennan góða félagsskap, bæði á samlestra og fundi og félagsstarfið í framhaldinu. Kjörorð félagsins er: Það er svo gaman að leika! og hægt að nálgast frekari upplýsingar á Facebooksíðu félagsins.