Vonskuveður gerði á Ströndum í morgun eins og víðar um land og um tíma fyrir hádegi var kafaldsbylur á Hólmavík og vindur fór í 31 m/s á Ennishálsi á ellefta tímanum. Eftir hádegi hefur síðan verið skafrenningur og gengið á með dimmum éljum. Vegagerðarmenn hættu um tíma að hreinsa veginn suður Strandir, en ófært er og hefur verið um Steingrímsfjarðarheiði, Bjarnarfjarðarháls og norður í Árneshrepp. Flugi var aflýst á Gjögur. Rafmagni sló ítrekað út á Ströndum í morgun, en það var aðflutningslínan yfir Tröllatunguheiði sem tolldi ekki inni.
Rafmagn var þó inni frá því laust fyrir hádegi því keyrt var á varaafli á Hólmavík og viðgerðarmenn frá Orkubúi Vestfjarða höfðu tekið stefnu á heiðina um hádegisbilið þegar fréttaritari hafði af þeim fréttir.