30/10/2024

Leiðbeiningar til æðarbænda

Í dag er stillt og fallegt við Steingrímsfjörð. Þó enn sé kalt lengir daginn og vorhljóð er að koma í fuglana. Þegar fregnritari strandir.saudfjarsetur.is gekk til morgunverka hnakkrifust fiskiandarblikar við sandinn, tjaldar kváðust á í Naustavíkurflúrunni og æðarfuglar úuðu við fjöruna inn með Hrafnsnesinu. Tvær grágæsir komu þögular í lágflugi yfir víkina og stefndu til norðurs. Kannske vildu þær ekki láta á sér bera, enda grunaðar um að koma með laumufarþegann H5N1. Fyrir þá sem ekki vita hvað H5N1 er, þá er það fuglaflensuveiran sem veldur sjúkdómi sem í örfáum tilvikum hefur smitað menn (staðfest í 175 tilvikum í heiminum síðan 2003).

Enginn hefur hingað til smitast vegna snertingar/sambýlis við villta fugla. Samt sem áður er sjálfsagt að viðhafa varúð í umgegni við fugla og því hefur dýralæknir fuglasjúkdóma sent frá sér leiðbeiningar til æðarbænda. Þar má m.a. lesa:

Mælst er til að menn klæðist sérstökum vinnufötum við vitjun hreiðra sem og aðra vinnu við fuglana og að einnota hanskar séu einnig notaðir við vinnu þar sem drit hefur mengað egg og dún.  Einnig er handþvottur með sápu að lokinni vinnu fyrirbyggjandi. Fuglaflensusmit drepst á 30 mínútum í 60 gráðu heitu vatni.  Einnig stuðlar sápa að dauða veirunnar.

Leiðbeiningar og samantekt um fuglaflensu má nálgast í heild á heimasíðu Landbúnaðarstofnunnar, www.lbs.is og www.yfirdyralaeknir.is.