23/12/2024

Landbúnaður til framtíðar

Aðsend grein: Ásmundur Einar Daðason
Fjöldi fólks hefur atvinnu af landbúnaði með beinum eða óbeinum hætti og margir byggðakjarnar eiga mikið undir þessari atvinnugrein. Víða er landbúnaður meginundirstaða annarrar atvinnustarfsemi og byggðalög eins og Hvammstangi, Sauðárkrókur, Blönduós, Búðardalur, Borgarnes o.fl. eru í dag að þjónusta landbúnað með einum eða öðrum hætti auk þess sem vinnsla á landbúnaðarafurðum fer fram á öllum þessum stöðum.

Stuðningur við landbúnað er stuðningur við byggð

Þegar ákvarðanir um breytingar á rekstrarumhverfi landbúnaðarins eru teknar þá er nauðsynlegt að hafa skilning á umhverfi landbúnaðarins og hlutverki hans í byggðalegu tilliti. Þeim byggðalögum sem byggja á landbúnaði er mikilvægt að halda opinberum stuðningi, bæði beinum og í formi tollaverndar. Einnig er mikilvægt að aðrir þættir í framleiðsluumhverfinu séu tryggðir til frambúðar. Framleiðsluferli margra landbúnaðarafurða er langt og þessi atvinnugrein er mjög viðkvæm fyrir hröðum breytingum.

Leggjum áherslu á hreinleika og sérstöðu landbúnaðarins

Stefna ber að því að allur landbúnaður sé rekin á vistvænan og sjálfbæran hátt. Erlendum ferðamönnum hefur fjölgað mikið og spár gera ráð fyrir enn meiri fjölgun á næstu árum. Eftirspurn eftir auknum fjölbreytileika og menningartengdum landbúnaðarafurðum hefur vaxið á undanförnum árum. Möguleikar í tengslum við aukna fjölbreytni eru óteljandi en þar má t.d. nefna afurðir beint frá bónda, framleiðslu á lífrænum afurðum, landbúnaðartengda ferðaþjónustu o.fl. Víða erlendis er þróun í átt til sérstöðu komin mun lengra, en á næstu árum er mikilvægt að leggja aukna áherslu á fjölbreytni og nýsköpun við mótun á rekstrarumhverfi landbúnaðarins.

Auðveldum kynslóðaskipti í landbúnaði

Kostnaðurinn við að hefja landbúnaðarframleiðslu fer hækkandi og ungt fólk á í erfiðleikum með að hefja búskap. Ástæðan er einkum sú að verð á bújörðum hefur hækkað mikið á undanförnum árum auk þess sem mikill kostnaður fylgir kaupum á greiðslumarki. Sé vilji til þess að landbúnaður verði áfram undirstöðuatvinnuvegur í hinum dreifðu byggðum þá er þetta áhyggjuefni sem þarfnast úrlausnar. Það er mikilvægt að skoða þessi mál ítarlega, í samráði við félagssamtök bænda, með það að leiðarljósi að tryggja framtíð landbúnaðar til lengri tíma en einnar kynslóðar.

Hvatning til nýsköpunar

Stjórnvöld verða að vera meðvituð um stöðu landbúnaðar og gera sér grein fyrir mikilvægi hans. Landbúnaðartengdar stofnanir þurfa að vera vakandi fyrir nýjum möguleikum og hafa öfluga framtíðarsýn. Þarna gegna landbúnaðarskólarnir, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands lykilhlutverki. Styðja þarf þessa skóla enn frekar til nýsköpunar og frumkvöðlastarfs á sem flestum sviðum.

Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur ætíð lagt ríka áherslu á að landbúnaður sé og verði ein af undirstöðum hinna dreifðu byggða. Íslenskur landbúnaður verður aldrei stærstur en hann getur orðið fremstur og það á að vera markmið þeirra sem móta málefni hans.

Ásmundur Einar Daðason háskólanemi og bóndi Lambeyrum
Skipar 4. sæti á framboðslista VG í NV-kjördæmi