Það var líf og fjör á leikskólanum Lækjarbrekku á Hólmavík þegar fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is leit þar við í hádeginu. Börnin voru býsna upptekin við að borða steiktan fisk sem var á boðstólum og þau voru öll sammála um að hann væri mjög góður og fóru létt með að klára allt af diskunum.
Á Lækjarbrekku eru 33 börn í tveimur deildum. Yngri deildin heitir Dvergakot og þar eru 13 börn og eldri deildin heitir Tröllakot með 20 börnum. Þar eru börnin þriggja ára og eldri.
Börnin biðu eftir því að það yrði gengið frá í matsalnum í kotinu þeirra, því eftir matinn átti að lesa fyrir þau sögu og þau hlakkaði greinilega mjög mikið til. Svo ætluðu þau kannski að fara út og leika sér í snjónum.