22/12/2024

Læðurnar í Árneshreppi fá glaðning fyrir jólin

Frá því var greint fyrir skemmstu að nemendur Finnbogastaðaskóla hefðu gert ítarlega rannsókn á kisum í hreppnum og komist að því að það væru eingöngu læður í sveitinni. Fréttin fór um eins og eldur í sinu um landið þvert og endilangt. Heldur hefur ræst úr með eðlilegt samlíf katta í sveitinni því á dögunum fluttu búferlum í hreppinn tveir fresskettir sem áttu áður lögheimili í Kattholti í Reykjavík. Bernharð og Óskar, en svo heita fressin, komu fljúgandi að sunnan eins og nútímakappa er siður. Frá því er greint á heimasíðu Finnbogastaðaskóla að þeim hafi þótt flugferðin lítið spennandi.

Að öllum líkindum verða fyrstu dagarnir hjá Bernharði og Óskari viðburðaríkir meðan þeir feta fyrstu sporin um sveitir Árneshrepps. Sex kisur eru í Árneshreppi eftir búferlaflutning þeirra félaga en fyrir í sveitinni voru fjórar læður. Á meðfylgjandi mynd sést Júlíana, annar tveggja nemenda í Finnbogastaðaskóla, með þá Bernharð og Óskar í fanginu að bjóða þá velkomna í sveitina.

Heimasíða Finnbogastaðaskóla er  www.strandastelpur.blog.is.

Ljósm.: Finnbogastaðaskóli