22/12/2024

Kynningarfundur um grunnmenntaskóla

ÞróunarsetriðÍ fréttatilkynningu frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða kemur fram að í kvöld (þriðjudaginn 16. sept.) verður haldinn kynningarfundur um grunnmenntaskólann sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða stendur fyrir í vetur. Fundurinn verður í námsverinu á efstu hæð Þróunarsetursins að Höfðagötu 3, Hólmavík. og hefst kl 20. Kristín Sigurrós Einarsdóttir verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða kynnir  þennan möguleika til náms og tekur á móti skráningum og fyrirspurnum. Einnig verða leiðbeinendur sem kenna á haustönn á staðnum.

Í grunnmenntaskólanum í vetur verður haldið áfram þar sem frá var horfið síðasta vetur. Kennt verður samkvæmt nýrri námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem kallast Nám og þjálfun í almennum bóklegum greinum. Markmið námsins eru m.a. að auka færni á almennum bóklegum greinum, til dæmis  með tjáningu í tungumálum, tölvunotkun til náms og skipulagningar og að auka færni sína í námstækni.

Til áramóta verða kenndar þrjár greinar, enska, íslenska og stærðfræði. Þeir sem taka allt námið eiga möguleika á að fá það metið til 24 eininga í framhaldsskóla.  Ekki er skilyrði að hafa tekið grunnmenntaskólann síðasta vetur, né eru nokkrar aðrar forkröfur gerðar. Þá er hægt að skrá sig í einstakar námsgreinar eða taka bara aðra önnina. Þetta er líka upplagt tækifæri fyrir þá sem stunda fjarnám og vilja nýta sér aðhald og stuðning kennara og samnemenda.

Skráningarfrestur er til föstudagsins 19. September og allar nánari upplýsingar gefur Kristín S. Einarsdóttir í síma 451 0080 og 867 3164 eða gegnum netfangið kristin@frmst.is.