Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri í Hólmavíkurhreppi hefur upplýst á spjalltorgi strandir.saudfjarsetur.is að í næstu viku sé von á kynningarefni frá samstarfsnefnd sveitarfélaga á Ströndum um fyrirhugaðar sameiningarkosningar. Ætlunin er þá að senda bækling inn á hvert heimili í sveitarfélögunum í Strandasýslu. Samstarfsnefndin hefur að sögn Ásdísar fundað fimm sinnum og einnig er búið að ákveða kynningarfundi í öllum sveitarfélögunum, þann 27. september í Broddaneshreppi, 29. september í Árneshreppi, 4. október í Hólmavíkurhreppi og 6. október í Kaldrananeshreppi.
Í bréfi Ásdísar kemur einnig fram að samstarfsnefndina fyrir þessa hreppa skipa Eva Sigurbjörnsdóttir og Gunnsteinn Gíslason fyrir Árneshrepp, Jenný Jensdóttir og Guðbrandur Sverrisson fyrir Kaldrananeshrepp, Haraldur V.A. Jónsson og Eysteinn Gunnarsson fyrir Hólmavíkurhrepp og Sigrún Magnúsdóttir og Sigurður Jónsson fyrir Broddaneshrepp. Er Haraldur formaður nefndarinnar.