22/11/2024

Kynning á verkefni um matartengda ferðaþjónustu

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur undanfarið verið að vinna að og móta verkefni er varðar matartengda ferðaþjónustu. Markmið með þeirri vinnu er að efla samstarf innan svæðis er varðar staðbundna matvælaframleiðslu og leiða saman aðila frá veitingahúsum, verslunum, ferðaþjónustu og matvælaframleiðendur í þeim tilgangi að vinna saman að vöruþróun, sameiginlegri markaðssetningu og ýmislegt fleira. Nú leitar Atvinnuþróunarfélagið að lykilaðilum í þessum greinum sem vilja koma að undirbúningi og þróun á verkefninu og hefur boðað til kynningar á morgun, miðvikudaginn 12. nóvember kl. 13:00, á fyrstu hæð Þróunarsetursins á Hólmavík.

Í fréttatilkynningu Atvinnuþróunarfélagsins segir að það sé mikilvægt að bæði reynsluboltar og áhugasamir aðilar komi að þróuninni í upphafi og hafi þar með áhrif á verkefnið og vinnuna sem framundan er.

Markmið verkefnisins eru m.a.:
– Byggja á sérstöðu svæðisins til að skapa virðisauka
– Efla samstarf innan og utan svæðis
– Gera vestfirsk matvæli sýnileg
– Nýjungar í framreiðslu
– Safna og vernda vinnuaðferðir og hefðir
– Auka gæðaímynd
– Hvetja veitingastaði til að nota staðbundið hráefni

Miðvikudaginn 12. nóvember verður haldin sameiginleg kynning á verkefninu fyrir Strandir og Reykhóla.  Áhugasamir eru hvattir til að koma og kynna sér verkefnið eða láta vita af eigin hugmyndum í tengslum við matvælaframreiðslu, matsölu, ferðaþjónustu  eða öðru þessu tengt. Kynningin hefst klukkan 13:00 á fyrstu hæð í Þróunarsetrinu á Hólmavík.