Víkingahljómsveitin Krauka hefur verið við upptökur á nýjum geisladiski hljómsveitarinnar á Bakka í Bjarnarfirði undanfarna daga. Að sögn Guðjóns Rúdolfs forsprakka sveitarinnar er þetta þriðji diskur Krauku og kemur út næsta sumar. Krauka hefur undanfarnar vikur verið í tónleikaferðalagi á Íslandi og spilað víða á Vestfjörðum og í Reykjavík, en sveitin var stofnuð árið 1999 og er með aðsetur í Århus í Danmörku. Krauka er einnig eftirsótt hljómsveit á víkingahátíðum og flytur tónlist sína um gjörvalla Evrópu á víkingahátíðum en þeir félagar eru orðnir ómissandi þáttur á þeim flestum.
Hljóðfæraleikararnir smíða hljóðfærin sjálfir sem eru eftirlíkingar af hljóðfærum norrænna manna á víkingaöld úr beinum, við og hvers kyns öðrum efnum. Ásamt Guðjóni Rúdolfi eru það Aksel Strim og Jens Villy sem fylla bandið. Guðjón mun vera á landinu fram yfir næstu helgi og plögga inn nýjan sólódisk sinn sem heitir Þjóðsöngur og á vonandi eftir að hljóma á öldum ljósvakans hér á landi á næstunni. Hægt er að kaupa tvo eldri geisladiska víkingasveitarinnar Krauka, Víkingaseiður og Stiklur á Galdrasýningu á Ströndum og í Strandabúðinni.
Krauka spilar um víða veröld á Víkingahátíðum.
Ljósm.: www.krauka.dk
Guðjón Rúdolf var einn skemmtikraftanna á hátíðinni Galdrastef á Ströndum í Bjarnarfirði 2001.
Ljósm.: Jóhann Björn Arngrímsson