22/12/2024

Kraftur fær góða gjöf

Eins og lesendur strandir.saudfjarsetur.is eflaust muna þá var haldið Hrútfirðingaball í Reykjavík með pompi og prakt þann 12. nóvember síðastliðinn. Hrútfirðingar og gestir þeirra fjölmenntu á ballið og að sögn Atla Vilhjálmssonar frá Kollsá sem hafði veg og vanda af uppákomunni, þá fór aðsóknin fram úr hans björtustu vonum. Atli hélt ballið á sína ábyrgð og ekki stóð til að hafa neinar tekjur af því og miðaverðið miðaðist við að koma út á núlli. "Nú varð aðsóknin mun betri en ég áætlaði," sagði Atli, "þannig að um 75 þúsund krónur voru eftir þegar dæmið var gert upp. Ég þekki ungt fólk sem hefur fengið krabbamein og ég veit hvað félagsskapur á borð við Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein, getur hjálpað þeim og aðstandendum þeirra. Ég ákvað því að færa þeim þessa peninga, ég veit að þannig er þeim vel varið."

Á meðfylgjandi mynd eru þau Steinunn Björk Reynisdóttir formaður Krafts og Daníel  Reynisson varaformaður Krafts að taka á móti gjöfinni úr hendi Atla Vilhjálmssonar, fyrir hönd Krafts.