23/12/2024

Kolaport á Ströndum

FélagsheimiliðÁkveðið hefur verið að halda Kolaport á Ströndum næstkomandi sunnudag 16. nóvember kl. 14-18 í Félagsheimilinu á Hólmavík. Þar geta allir þeir vilja taka þátt fengið frían sölubás og selt hvað sem nöfnum tjáir að nefna, hvort sem varningurinn er notaður eða nýr, leikföng, föt, húsgögn stór og smá, myndir, bækur, plötur, sultu, saltfisk, signa grásleppu, egg og hákarl, tíuþúsundkalla með mynd af Davíð Oddssyni eða evrur, frímerkjasöfn, önnur söfn, pottablóm eða eitthvert annað góss sem gæti nýst öðrum.

Allir geta verið með og verið með eigin sölubás frítt í Félagsheimilinu. Borð og stólar á staðnum en annað verða þátttakendur að koma með og enginn posi er á vegum hússins. Þeir sem ætla að selja þurfa að tilkynna þátttöku í s. 694-3306 (Ásdís) eða 451-3389 (Ásta). Húsið verður opnað kl. 12 fyrir söluaðila til að setja upp básana. Allir eru svo hvattir til að mæta næsta sunnudag og á staðnum verður veitingasala og lifandi tónlist.