30/10/2024

Kleinu- og rúgbrauðssala á laugardegi

Tveir ungir drengir úr Ungmennafélaginu Geislanum á Hólmavík hyggjast leggjast í víking í vor og fara í körfuboltaferð til Danmerkur með Kormáki á Hvammstanga í sumarbyrjun. Þeir eru Arnór Jónsson sem æfir með 8. flokki og Einar Friðfinnur Alfreðsson sem æfir með 7. flokki. Þeir félagar hafa nú með aðstoð foreldra sinna og fleiri góðra aðila skipulagt heilmikla fjáröflunarherferð til að safna fyrir ferðinni. Þeir félagar hafa m.a. fengið til liðs við sig einhver helsta kleinumeistara Hólmavíkur, Ásdísi Jónsdóttur, sem mun stýra kleinubakstri og síðan munu þeir ganga í hús og selja kleinur og heimabakað rúgbrauð frá því um kl. 11:00 á laugardag.

Það er því upplagt að tryggja sér kleinur með kaffinu handa heimilisfólki og góugestum sem eflaust verða margir í heimahúsum þessa helgi. Arnór og Einar hafa einnig tekið að sér að bera út Gagnveg á Hólmavík og taka fúslega að sér önnur verkefni við útburð á dreifiritum.