22/12/2024

Kindafundur í árslok

Ljósm. Árni Þór BaldurssonSex snjósleðakappar fóru á fimm sleðum fram á Trékyllisheiði þann 29. des. að gá að kindum, Ingólfur Árni Haraldsson, Sölvi Þór og Steinar Þór Baldurssynir, Smári Vals, Atli Arnar Sigurðsson og Örvar Ólafsson. Lítill snjór var á heiðinni svo að það varð að þræða skaflana alla leiðina fram heiðina og svo niður með Goðdalnum. Vitað hafði verið um kindur þarna frá því í haust, en þær höfðu sloppið nokkrum sinnum frá smalamönnum og höfðu stokkið í Hestaklifagil sem var foráttumikið og drepið þar undan sér tvö lömb og treystu menn sér ekki á eftir þeim í gilið.

Nú fundust þessar kindur upp á brúninni fyrir ofan Hestaklifagil eða fyrir ofan Illviðrishnjúk og stóðu í einum hnapp átta stykki, fjórar ær og fjögur lömb, en ein lamblaus ær var frá Bæ í Árneshreppi. Hitt var allt frá Odda. Einn smalamaður, Steinar Þór, fór á eftir þeim fótgangandi niður Goðdalinn, enda mjög lítil snjór svo að sleðamenn urðu að snúa við til baka sömu leið og þeir komu. Á leiðinni til baka kviknaði í einum sleðanum en það tókst að slökkva eldinn fljótt og vel með snjó svo að lítið skemmdist.

Fleiri smalamenn komu svo fram í Goðdal á móti Steinari – Árni Þór, Helga og Haraldur, Guðbrandur frá Bassastöðum og Björn tengdasonur hans voru líka í för svo komu Ingi, Birna og Alda frá Kaldrananesi. Gekk vel að ná kindunum en þær voru orðnar þreyttar og móðar eftir þessa löngu göngu í þessari færð enda voru þær búnar að þræða alla skafla á leiðinni.

Fólk getur skoðað myndir af ferðinni fram Trékyllisheiði á www.123.is/strandatrollin og svo eru hér meðfylgjandi myndir af því þegar þær komu niður og voru gripnar. Vill undirritaður þakka öllum sem hjálpuðu okkur að ná þessum kindum bæði sleðamönnum og öðrum.

Gamlárskindur

landbunadur/580-gamlarskindur6.jpg

landbunadur/580-gamlarskindur4.jpg

landbunadur/580-gamlarskindur2.jpg

Árni Þór Baldursson, Odda.