22/12/2024

Keppt í níu greinum á Unglingalandsmóti á Hólmavík 2010

Á vef Héraðssambands Strandamanna (www.123.is/hss) kemur fram að ætlunin er að keppa í níu íþróttagreinum á unglingalandsmóti á Hólmavík árið 2010. Þessar greinar eru glíma, frjálsar íþróttir, körfubolti, fótbolti, sund, golf, hestaíþróttir, mótorkross og skák. Kemur fram á vef HSS að ekki þurfi miklar framkvæmdir til að bjóða upp á þessar greinar, einungis þurfi frjálsíþróttavöll og reiðvöll. Þá kemur fram að fyrir hendi séu mikil og góð opin svæði þar sem auðvelt verður að koma fyrir tjaldbyggð með rennandi vatni og rafmagni. Allar leiðir séu stuttar og allt í göngufæri, en hugmyndin er að rútur verði í förum til að ferja fólk lengstu leiðirnar.

Aðstaða sé mjög góð á Hólmavík, segir á vef HSS, eftir uppbyggingu síðustu ára, ný 25 metra útisundlaug og nýtt og flott íþróttahús sé á staðnum, ásamt eldra íþróttahúsi sem verði einnig notað undir íþróttaviðburði á mótinu.

Þá er ljóst að ný mótorkrossbraut  á Hólmavík kemur nú að góðu gagni, en sveitarfélagið hefur stutt kröftuglega við bakið á mótorkrossdeild ungmennafélagsins Geislans við gerð hennar og studdi verkefnið m.a. um milljón nú í sumar. Einnig hefur verið nokkur uppbygging á golfvellinum í Skeljavík á vegum Golfklúbbsins.

Í skýrslu sveitarstjóra sem lögð var fram á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í vikunni kom fram að mikilvægt sé að byrja á því að gera frjálsíþróttavöll strax í haust. Hægt sé að fá teikningar af slíkum velli frá Vík í Mýrdal eða Þorlákshöfn og mun Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri falast eftir þeim. Hún hyggst einnig kanna hvort upplýsingar um völl fyrir hestaíþróttir séu fyrirliggjandi hjá þessum sveitarfélögum, en eftir það liggi fyrir að athuga hvar slíkur völlur kæmist fyrir. 

Ómar Bragi Stefánsson frá Sauðárkróki mun gegna starfi framkvæmdastjóra mótsins fyrir hönd UMFÍ og er áformaður fundur með honum, sveitarstjóra og formanni HSS sem fyrst. Síðan er ætlunin að haldinn verði íbúafundur þar sem verkefnið er kynnt, að því er segir á vef HSS.