23/12/2024

Jólasveinarnir taka á móti símtölum

Jólasveinar svara í síma Snemma í morgun, fyrir allar aldir, barst símtal á skrifstofu strandir.saudfjarsetur.is úr Grýluhelli. Hinum megin á línunni var sérlegur fjölmiðlafulltrúi jólasveinanna, Stekkjarstaur. Hann vildi koma því á framfæri að allir krakkar sem trúa því að jólasveinnin sé til geta hringt í Grýluhelli og spjallað lítillega við hvern og einn þeirra fram til jóla. "Við jólasveinarnir höfum komið okkur saman um að sá okkar sem fer til byggða það kvöldið situr við símann áður en hann leggur í hann. Þannig að ég verð sá fyrsti og verð til viðtals frá kl. 20:00 – 21:00 annað kvöld, svo hendi ég pokanum á bakið og legg ég í hann um miðnætti að gefa börnum í skóinn, já eða kartöflu ef svo ber við," sagði Stekkjarstaur.

Hægt verður að hafa samband við jólasvein í stutt spjall með því að nota símakerfið Skype og hringja í númerið gryluhellir, eins og Stekkjarstaur orðaði það. Eins og kunnugt er þá gera jólasveinar engan greinarmun á tölustöfum og bókstöfum.

Til þess að geta notað Skype netsímakerfið þarf að byrja á því að fara á vefsíðuna www.skype.com og hlaða niður Skype netsímanum og búa sér til notendanafn. Það þarf bara að gera einu sinni. Eftir það er hægt að hringja gjaldfrjálst í jólasveinanna hvaðan sem er úr veröldinni, en þeir svara í netsímann milli klukkan 20:00 og 21:00 öll kvöld fram að jólum. Nema náttúrulega að eitthvað komi upp á.