23/12/2024

Jólahlaðborð á Reykjum

Gestgjafarnir tóku á móti gestunum með jólalegum fordrykkRúmlega tuttugu manna hópur í starfsmannafélagi Heilbrigðisstofnunarinnar á Hólmavík fór á jólahlaðborð að Reykjum í Hrútafirði sl. laugardagskvöld. Þetta er þriðja árið sem staðarhaldarar að Reykjum standa fyrir slíku hlaðborði, það fyrsta var haldið í Gunnukaffi á Hvammstanga, í fyrra var hlaðborðið í félagsheimilinu á Hvammstanga en að þessu sinni í hinum fornfræga Reykjaskóla.

Hólmvíski hópurinn mætti á staðinn um miðjan dag og byrjaði á að skoða Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna og var staldrað lengi við hákarlaskipið Ófeig. Á safninu eru margir munir af Ströndum og gátu því margir fundið handbragð forfeðranna innan um safngripina. Eftir viðdvöl á safninu var farið í heita pottinn og síðan í betri fötin. Borðhald hófst með fordrykk og var nánast fullskipaður veislusalurinn.

Heiðursgestir þetta kvöld voru Magnús Stefánsson alþingismaður og Drífa kona hans. Veislustjóri var Gísli Einarsson fréttamaður og beindi hann spjótum sínum óspart að Strandamönnum, ekki síst lögreglunni sem hann virtist hafa haft töluverð kynni af sökum aksturslags. Veitingar voru allar hinar glæsilegustu og Elínborg Sigurgeirsdóttir lék ljúfa dinnertónlist á meðan gestir reyndu hvað þeir gátu að bragða á öllum kræsingunum sem borðin beinlínis svignuðu undan. Flestir úr hópnum gistu svo á staðnum og enduðu dvölina á morgunverði með jólaívafi. Ekki veitti nú af að næra sig fyrir heimferðina, enda mikil hálka á vegum og seinfarið norður sýsluna.