25/11/2024

Janúarmánuður kaldur en snjóléttur

Gjögur - ljósm. Jón G.G.Hér birtist yfirlit yfir veðrið í janúar frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík, en það er að venju Jón G. Guðjónsson veðurathugunarmaður sem tekur yfirlitið saman. Heilt yfir var janúarmánuður kaldur, en snjóléttur. Vindur náði 12 vindstigum, 40 og 42 m/s eða meira í kviðum í ofsaveðrinu 27. jan. Dálítill frostakafli var frá 13. og út mánuðinn nema 22. og 27. þá var smá bloti. Mestur hiti var þann 3. janúar, þá 8,6 stig, en mest frost var þann 31., þá 8,4 stig.

Yfirlit eftir dögum:

1.-4.: Sunnan og suðaustan, allhvass þann 1. síðan kaldi og stinníngsgola, rigning, slydda, él, hiti 1 til 9 stig.
5.: Austan stinníngskaldi, rigning, hiti 2 til 4 stig.
6.-7.: Suðvestan gola eða kaldi, rigning síðan slydda og él þann 7., hiti 1 til 3 stig.
8.-11.: Norðaustan stinníngsgola eða kaldi, él eða slydda, þurrt þann 10., hiti 0 til 3 stig.
12.-16.: Austan andvari eða gola en kaldi þann 15., þurrt þann 14., smá él en smávegis snjókoma þann 16., frost 0 niðrí 5 stig.
17.: Sunnan stinníngsgola eða kaldi, úrkomulaust, hiti frá 3 stigum niðrí 2 stiga frost.
18.: Breytileg vindátt með golu í fyrstu, síðan norðaustan stinníngskaldi og norðvestan allhvass um tíma um kvöldið, snjókoma, frost 2 til 5 stig.
19.-20.: Suðvestan og norðvestan seinni daginn, stinníngsgola, smá él, frost frá 1 stigi til 5 stig.
21.: Austlæg vindátt, gola, þurrt, frost 0 til 2 stig.
22.: Austan í fyrstu kaldi, síðan suðvestan og allhvass um tíma, smá rigning, síðan él, hiti 2 til 5 stig.
23.-26.: Suðvestan og sunnan mest kaldi, él, frost 1 til 4 stig.
27.: Austan í fyrstu með allhvössum vindi, síðan snérist í sunnan og suðvestan, þá með ofsaveðri fram á nótt, snjókoma í fyrstu, síðan rigning og skúrir og él eftir miðnætti. Frost í fyrstu, síðan hlýnaði ört, hiti fór í 6,6 stig.
28.-30.: Suðvestan og vestan stinníngsgola eða kaldi, smá él, frost 2 til 6 stig. Snérist í norðan og norðaustan með snjókomu um kvöldið þann 30.
31.: Norðan hvassviðri eða allhvass með mjög dimmum éljum, frost 4 til 8 stig.

Úrkoman mældist 55,9 mm.
Úrkomulausir dagar voru 3.
Jörð var talin alhvít í 16 daga.
Jörð var talin flekkótt í 8 daga
Auð jörð því í 7 daga.
Mesta snjódýpt mældist dagana 20. og 21., 16 sentimetrar báða dagana.
Sjóveður: Oft slæmt í sjóinn þótt veðurhæð hafi oftast ekki verið mikil.

Tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.