Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er stærsta samkoma ársins, Íslandsmeistaramót í hrútadómum, sem verður haldið sunnudaginn 16. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð. Jafnan er góð þátttaka í hrútadómunum, bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra hrútaþuklara. Að venju verður kjötsúpa á boðstólum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Síðasta ár sigraði Björn Þormóður Björnsson, Ytra-Hóli, Austur-Húnavatnssýslu og landaði því Íslandsmeistaratitlinum í hrútadómum í annað skipti, en hann sigraði áður árið 2005. Í öðru sæti var Kristján Albertsson bóndi á Melum í Árneshreppi en hann hefur fjórum sinnum farið með sigur af hólmi og hafa hæfileikar hans í þessari sérstæðu keppnisgrein vakið mikla athygli. Í þriðja sæti urðu jöfn Helga Guðmundsdóttir í Stykkishólmi og Guðbrandur Björnsson á Smáhömrum í Strandabyggð.
Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi þrjár sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sauðfé í sögu þjóðar. Í kaffistofunni er sýningin Manstu? sem er greiningarsýning á ljósmyndum Tryggva Samúelssonar sem voru teknar á árabilinu 1950-1970. Á listasviðinu er sýningin Álagablettir og í sérsýningarherbergi er sögusýning sem ber yfirskriftina Brynjólfur Sæmundsson og starf héraðsráðunauta. Brynjólfur var ráðunautur á Ströndum í nærri 40 ár og var þessi sýning opnuð á Hrútadómum í fyrra.
Í Sauðfjársetrinu er rekið kaffihúsið Kaffi Kind og þar verður veglegt kaffihlaðborð á boðstólum. Í sumar hefur verið starfræktur Náttúrubarnaskóli á vegum Sauðfjársetursins og verður yfirnáttúrubarnið Dagrún Ósk Jónsdóttir með kynningu á verkefninu á Hrútadómunum.
Safnið verður opið alla daga milli 10-18 út ágústmánuð og um helgar í september. Í haust er stefnt að frekari viðburðum. Þá verða m.a. þjóðtrúarkvöldvaka, handverksnámskeið og leiksýning þar sem draugum á Ströndum verða gerð skil. Árleg sviðaveisla verður haldin í október.