30/10/2024

Íslandsmeistarar í körfubolta

Um helgina náði 9. flokkur kvenna undir merkjum Kormáks á Hvammstanga þeim glæsilega árangri að hampa Íslandsmeistaratitli í körfubolta. Lið Kormáks sem fagnaði titlinum er skipað stúlkum bæði úr Húnaþingi vestra og af Ströndum. Mótið var haldið síðastliðna helgi í Laugardalshöllinni, þar sem undanúrslitaleikirnir fóru fram á laugardeginum og úrslitaleikurinn á sunnudag. Í úrslitaleiknum vann Kormákur lið Ungmennafélags Hrunamanna (UMFH) með 52 stigum gegn 32. Áður hafði Kormákur burstað Hauka í undanúrslitum með 56 stigum gegn 30.

Eftirtaldar stúlkur skipa liðið sem landaði Íslandsmeistaratitlinum:
 
Jóhanna Rósmundsdóttir, Hólmavík
Agnes Jónsdóttir, Hólmavík
Þórdís Karlsdóttir, Hólmavík
Ellen Björnsdóttir, Melum Árneshreppi
Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, Borðeyri
Sigrún Soffía Sævarsdóttir, Borðeyri
Ólöf Rún Skúladóttir, Sólbakka Víðidal
Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Reykjum Staðarhreppi
Margrét Eik Guðjónsdóttir, Hvammstanga
Drífa Huld Guðjónsdóttir, Hvammstanga
Bryndís Björk Hauksdóttir, Hvammstanga
Lóa Dís Másdóttir, Hvammstanga
     
Einnig kepptu í 9. flokki í vetur þær Erna Dóra Hannesdóttir Hólmavík, Eygló Ingvadóttir Hvammstanga og Þorbjörg Helga Sigurðardóttir Fjarðarhorni. Þjálfarar liðsins eru Már Hermannsson Hvammstanga og Oddur Sigurðarson Hvammstanga.

Samstarf USVH og HSS í hinum ýmsu íþróttagreinum sem staðið hefur í nokkur hefur verið með ágætum.
Það má teljast mikil elja hjá stúlkunum í 9. flokki að stunda sameiginlegar æfingar þar sem fjarlægðin er mikil milli liðsmanna, en um það bil þrjú hundruð kílómetrar eru frá Melum í Árneshreppi og að Sólbakka í Víðidal sem eru á sitt hvorum endanum. Æfingarnar eru fyrst og fremst verið haldnar á Hvammstanga og má hrósa Strandastúlkunum fyrir dugnað að mæta á æfingar.

Þessi héraðssambönd hafa nú þegar hafið undirbúning að unglingalandsmótinu sem verður haldið að Laugum í þingeyjarsýslu um verslunarmannahelgina og verða þar sameiginlega með lið í hópíþróttum eins og á undanförnum árum. 

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is óskar stúlkunum hjartanlega til hamingju með þennan glæsilega árangur.

ithrottir/2006/580-karfa3.jpg

1

Glæsilegur árangur hjá stúlkunum – ljósm. Katrín Kristjánsdóttir og Sævar Örn Sigurbjartsson.