22/12/2024

Idol-bíllinn kemur!

Strandamenn hafa ekki farið varhluta af Idol-æðinu sem hefur gengið yfir landið undanfarna tvo vetur, en hæfileikaríkir einstaklingar sem tengjast Ströndunum órjúfanlegum ættarböndum hafa náð góðum árangri í keppninni.  Á morgun, sunnudaginn 21. ágúst, gefst kjörið tækifæri fyrir Strandamenn og stúlkur á aldrinum 16-28 ára að láta reyna á sönghæfileika sína. Þá verður Idol-bíllinn staddur á Hólmavík í óformlegum leitarrúnti eftir hæfileikafólki, en Hólmavík er lokaáfanginn í ferð bílsins um Vestfirði.

Á útvarpsstöðinni Bylgjunni skýrði Kristín Ása Einarsdóttir, sem vinnur sem dagskrárgerðarmaður við Idol-þáttinn, frá því að markmið ferðarinnar sé að finna hæfileikafólk á Vestfjörðum sem er á réttum aldri og allmargir strákar og stúlkur hafi fundist nú þegar. Þeir Strandamenn sem vilja spreyta sig ættu því að hafa vakandi auga með ferð bílsins um plássið og banka á rúður þegar hann stoppar – það er aldrei að vita nema ein lítil söngtilraun á Hólmavík verði á stuttum tíma að sjarmatröllsöng á stóra sviðinu í Smáralind.