22/11/2024

Hvert er hlutverk höfuðborgar

Grímur AtlasonGrein eftir Grím Atlason.
Gísli Marteinn ætlar ekki að splæsa á landsbyggðarskrílinn í strætó. Á heimasíðu hans má lesa eftirfarandi:
„Reykjavíkurborg býður sínu fólki upp á góða þjónustu, ýmiskonar niðurgreiðslu og afslætti, sem ekki er boðið upp á í öðrum sveitarfélögum. Nemakortin eru þess háttar þjónusta og það væri vægast sagt einkennilegt ef Reykjavík færi að splæsa á utanbæjarfólk í strætó. Það stendur ekki til.“

Þetta er ekki svona einfalt eins og Gísli Marteinn heldur fram. Reykjavík er ekki bara eitthvað sveitarfélag sem getur gert það sem því sýnist þegar því hentar. Hér er um að ræða höfuðborgina og það voru ekki Reykvíkingar sem ákváðu að stofnanir, stjórnsýsla, skólar, spítalar o.fl. yrði komið fyrir innan marka hennar. Það voru landsmenn allir. Það er því verulega aumt að mismuna námsmönnum í Reykjavík með þeim hætti sem borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú ákveðið.

Verr stödd sveitarfélög fjárhagslega eru mörg hver að niðurgreiða þjónustu og gera ekki greinarmun eftir búsetu. T.d. er gjaldfrjálst í sund fyrir börn yngri en 16 ára í Bolungarvík. Þar skiptir engu hvort barnið sé frá Ísafirði, Bolungarvík eða Reykjavík. Enda væri það ömurlegt að segja 8 ára vinum sem mættu í laugina: þú ofaní en þú getur farið heim – lögheimilið er ekki rétt. Þetta er auðvitað alls ekki samanburðarhæft dæmi þar sem ríkisskólar og aðrir skólar í Reykjavík eiga að þjónusta allt landið og það er klárlega siðferðileg skylda Reykjavíkur að mismuna ekki fólki með þessum hætti.

Lagalega er ekkert athugavert við þetta – en aumt er það. Þetta er líka svo ótrúlega skammsýn hugsun sem liggur að baki afstöðu borgarfulltrúans. Vantar ákveðna víðsýni og skilning á samfélaginu öllu og þörfum þess til framtíðar – ekki aðeins Reykavík og þörfum þess sveitarfélags í dag og á morgun.

Grímur Atlason, sveitarstjóri í Dalabyggð