22/12/2024

Hver er konan á myndinni?

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is fékk í dag senda ljósmynd af konu sem talin er vera Strandamaður, en upprunalega myndin er varðveitt í Skjala- og myndasafni Norðfjarðar á Neskaupsstað. Talið er að myndin sé tekin í Reykjavík árið 1929 og í skrá ljósmyndara stendur Ragnheiður Jónsdóttir Tröllatungu. Nokkrar konur með því nafni eru fæddar á Ströndum á þeim tíma sem gæti passað við myndina og ártalið 1929 og ef ritstjóri strandir.saudfjarsetur.is man rétt hét ein dóttir Jóns Jónssonar og Halldóru Jónsdóttur sem bjuggu í Tröllatungu um aldamótin einmitt Ragnheiður.

Þetta þarf hins vegar að fást staðfest, hvort um þessa Ragnheiði sé að ræða eða hvort myndin er kannski af einhverri annarri Ragnheiði, eða jafnvel konu sem gæti hafa borið eitthvað allt annað nafn. Við viljum biðja þá sem kannast við konuna að senda okkur skeyti á strandir@strandir.saudfjarsetur.is.