23/12/2024

Hvalreki ef vel er að staðið

Afar hæpið að ógn geti stafað af innflytjendum á Íslandi
Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir 
Fjölmenningasetrið á Ísafirði og Háskólasetur Vestfjarða stóðu fyrir   athyglisverðri ráðstefnu um málefni innflytjenda fyrir skömmu. Raunar er alrangt að tala um "málefni innflytjenda" í þessu samhengi, í samfélagi sem er okkar allra, hvort heldur við höfum búið á Íslandi frá fæðingu eða flytjum þangað síðar á lífsleiðinni.  Málefnið, ábyrgðin, réttindi og skyldur eru okkur sameiginleg. Það má ekki gleymast að hið fámenna íslenska samfélag hefur ómælt gagn af þeim liðsmönnum sem okkur bætist með innflytjendum að ekki sé talað um aukna fjölbreytni í menningu og mannlífi sem þeim fylgir.

Ómetanlegt framlag innflytjenda

Innflytjendur á Íslandi er ekki ný saga, ekki frekar en íslenskir  innflytjendur á erlendri grund.  Við ætlumst til að okkur sé hvarvetna vel tekið og fagnandi, okkar vinnufúsu hendur á erlendri grund metnar að verðleikum, hvort heldur eru hendur íslensks fiskverkafólks í Danmörku eða lækna í Svíþjóð og Noregi sem og annarra Íslendinga á fjarlægari slóðum.  Við  geymum dyggilega í  minni hið vestur-íslenska samfélag sem hélt svo vel saman og varðveitti íslenska tungu ættliðum saman.  Að sjálfsögðu eigum við að sýna fólki af öðru þjóðerni, sem kýs að búa með okkur um lengri eða skemmri tíma, skilning og meta framlag þess, menntun og kunnáttu.  Á því virðist vera nokkur brotalöm. 

Margt sameiginlegt

Á ráðstefnunni á Ísafirði kynntu fræðimenn frá Kanada, Noregi, Þýskalandi og Íslandi rannsóknir sínar á  högum innflytjenda og farandverkafólks.  Það voru merkilega margir sameiginlegir þættir í erindum þeirra og ýmislegt sem draga má lærdóm af hér á Íslandi þar sem samfélagið er fámennt, tiltölulega viðráðanlegt og síðast en ekki síst eitt það auðugasta í heimi.  Við höfum því mjög góða möguleika á auðvelda samlögun þeirra sem fyrir eru og innflytjenda bæði með því að skoða eign reynslu og annarra.

Tillögur Samfylkingarinnar

Meðal fjölmargra mála, sem Samfylkingin hefur flutt á Alþingi undanfarin ár varðandi innflytjendur, er þingsályktun frá síðast liðnum vetri um heildar stefnumótun í málefnum innflytjenda.  Þar er tekið á öllum mikilvægustu þáttum til þess að samlögun íslensks samfélags og innflytjenda megi verða sem hnökralausust.  Þar skipar Íslenskukennsla lykil hlutverk en mikilvægi íslenskukunnáttu kom einmitt ítrekað fram í máli þeirra er tjáðu sig á ráðstefnunni á Ísafirði.

Unga Ísland

Málefni barna innflytjenda og foreldra þeirra eru einnig til umfjöllunar í nýframkominni aðgerðaráætlun Samfylkingarinnar í málefnum barna á Íslandi, Unga Ísland.  Þessar tillögur Samfylkingarinnar gera m.a. ráð fyrir markvissum stuðningi við börnin til þess að þau fái sömu tækifæri í íslensku samfélagi og önnur börn, að átak verði gert í íslenskukennslu fyrir foreldra og réttur þeirra til túlkaþjónustu verði lögvarinn, og sérstakri aðgerðaráætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri (Unga Ísland í heild: www.samfylkingin.is/Forsida/Stefnan/UngaIsland/).

Brotalamir en ráð fyrir hendi

Víða er brotalöm að finna í réttindamálum, aðstöðu og aðbúnaði innflytjenda á Íslandi.  Á því hyggst Samfylkingin ráða bót, komist hún til valda eftir kosningar og hefur markað sér skýra stefnu í því efni.

Ráðstefnan á Ísafirði var metnaðarfull og fróðleg og skipulag hennar skemmtilegt þar sem heimamenn höfðu verið fengnir til að koma með stutt innlegg á eftir hverjum fyrirlestri.  Hafi skipuleggjendur og þátttakendur þökk fyrir góða daga á Ísafirði.

Anna Kristín Gunnarsdóttir
alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi