Grein eftir Karl Matthíasson.
„Hvað boðar nýárs blessuð sól.“ Þannig hefst nýárssálmur sr. Matthíasar Jochumsonar sem fæddist á Skógum í Þorskafirði árið 1835 og lést á Akureyri árið 1920. Tímar hans voru ólíkir okkar tímum og miklar breytingar lifði hann í lífi sínu. Við vitum að mikill munur var á lífskjörum þjóðarinnar þá og nú. En hér fer ég hvorki frekar úti í samanburð á tímum sr. Matthíasar og okkar, né ætla ég að skoða nánar nýárssálminn góða. Hvet þó fólk til að lesa hann (aðgengilegur á netinu, kirkjan.is og númer 104 sálmabókinni).
Eftir þær miklu hræringar sem átt hafa sér stað á árinu 2008 held ég að allir spyrji sig: „Hvernig verður nýja árið, 2009? Hvað mun gerast sem ég ræð engu um? og hvað mun verða sem við látum gerast? Eitt það mikilvægasta sem við eigum að gera og getum gert á nýja árinu er að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Breyta úthlutunarreglunum og afnema þann fáránleika að örfáir einstaklingar hafi full yfirráð yfir fiskistofnum þjóðarinnar. Mjög margt fólk víkur sér að mér þessa dagana og leggur á það mikla áherslu, að við „breytum kvótakerfinu“. Ástæðan fyrir því er augljós, sjórinn og miðin eru í hugum margra mikill mögleiki til að bjarga sér frá atvinnuleysi og jafnvel gjaldþroti. Þjóðin er klár á þvi að fiskimiðin eru sameign hennar og að sem flestir eigi að njóta. Stór hluti þjóðarinnar hefur ímugust á núverandi kerfi og vill breyta þvi og krafan um réttlæti og ábyrgð mun óhjákvæmilega vaxa í þeim erfiðu aðstæðum sem við nú erum.
Í ljósi mikillar fiskgengdar væri góð byrjun að veita viðbótarkvóta sem setur yrði á markað. Það gæfi þjóðinni miklar tekjur og einnig myndi það gefa kvótalitlum útgerðum möguleika til að starfa á jafnréttisgrundvelli. Svo er það heldur engin spurning að við verðum líka að gefa handfæraveiðar frjálsar á minni trillunum til þess að skapa atvinnu. Við getum hugsað okkur muninn á líðan þess manns sem stendur við skakrúlluna og vinnur fyrir sér og sínum og spjallar við múkkann í stað þess manns sem situr atvinnulaus og kvíðinn við eldhúsborðið heima hjá sér.Til þess að breyta kerfinu þarf að hafa hugrekki sem hlýtur að aukast vegna úrskurðar Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem við fengum á okkur í fyrra.
Þá hafa vaknað ýmsar spurningar upp á síðkastið sem gefa okkur enn fremur tilefni til að velta því upp hvort ekki sé brýn nauðsyn til að breyta lögunum um stjórn fiskveiða. Eins og til dæmis eftirfarandi tvær
spurningar: 1. Hvað á að gera við kvóta gjaldþrota útgerða sem lenda inni á borðum bankastjóranna? 2. Munu erlendir bankar eignast veiðirétt íslenskara fiskistofna ef þeir kaupa íslenska banka?
Það var til fólk sem hélt því fram að kvótakerfið okkar væri það besta í heimi og því miður hafa aðferðir þess verið boðaðar í nýlendustefnu stórra útgerða. Þetta frábæra kvótakerfi hefur þó ekki virkað betur en svo að nokkrar útgerðir a.m.k eru í gjörgæslu hjá bönkunum. Og svo hefur það hvorki stuðlað að þeirri uppbyggingu fiskistofnanna sem var markmið lagasetningarinnar um stjórn fiskveiða né eflt atvinnu í byggðum landsins. Auk þess sem það hefur leitt til mikillar samþjöppunar og jafnvel einokunar.
Í þeirri krepputíð sem nú ríður yfir okkur höfum við ekki lengur efni á hagfræðilegum loftfimleikum með fjöregg þjóðarinnar. Við verðum að hefja vinnu nú þegar til að breyta kerfinu. Það væri góðu byrjun á nýju ári.
Stöndum saman, Kalli Matt.
Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi