Húsbíll fauk út af veginum í Veiðileysufirði í Árneshreppi í gærmorgun. Hvasst var og miklar vindhviður á Ströndum af suðvestri fyrripart dagsins í gær. Húsbíllinn valt og skemmdist og varð að sækja hann á vörubíl. Ökumann og farþega sakaði ekki. Í fréttum útvarpsins og á textavarpinu í gær var talað um að bíllinn hefði oltið rétt við Hólmavík, en norður í Veiðileysu frá Hólmavík munu vera um það bil 60 kílómetrar. Ef sambærileg ónákvæmni væri brúkuð við fréttaflutning syðra væri talað um að bíll sem ylti austan við Selfoss hefði oltið rétt við Reykjavík. Veðurspáin fyrir næsta sólarhring er þannig að búist er við sunnan og suðvestan 10-15 m/s og skúrum, en 5-10 og úrkomulitlu í kvöld. Hiti 8 til 14 stig.