Sveitarfélagið Strandabyggð hyggst standa fyrir skemmtilegum og skapandi hugmyndafund um fjárhagsáætlun Strandabyggðar í Félagsheimilinu á Hólmavík í kvöld, þriðjudaginn 23. nóvember kl. 20:00. Stutt kynning verður á stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins áður en farið verður í hugmyndavinnu í umræðuhópum. Leitast verður við að svara eftirtöldum fjórum spurningum: Hvar má hagræða? Hvað má ekki spara? Hvernig getum við aukið tekjur? Hvað kostar lítið en gerir mikið? Í fréttatilkynningu kemur fram að litlar, stórar, nýjar og gamlar hugmyndir séu vel þegnar, en fundurinn sé jafnframt frábært tækifæri til að hittast, spjalla og hafa áhrif á framtíð Strandabyggðar. Allir íbúar eru hvattir til að mæta.