Aðsend grein: Jón Jónsson
Hótelbygging á Hólmavík hefur oft verið í umræðunni sem lykilatriði við uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Þá heyrist mér að sé oftast talað um 50-60 manna hótel með fullri veitingaþjónustu og herbergjum með baði, en skortur er á þeim á svæðinu. Slík hótelherbergi eru aðeins á Hótel Laugarhóli hér á Ströndum. Ég er viss um að slíkt hótel hefði mjög jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Ströndum og reyndar Vestfjörðum öllum því þar væri kominn lykilaðili sem myndi einbeita sér að því að markaðssetja svæðið með öllum þeim jákvæðu áhrifum sem það hefði fyrir aðra þjónustuaðila. Hótel á Hólmavík myndi meira að segja hafa jákvæð áhrif fyrir flesta aðra gististaði á Ströndum og líklega fyrir þá alla til lengri tíma litið. Flestir sem nú eru starfandi gera út á annan markhóp en þann sem myndi gista á Hótel Hólmavík þannig að líklegt er að um hreina viðbót yrði að ræða.
Giska má á að hótel með 30 tveggja manna herbergjum og öllu tilheyrandi kosti a.m.k. 250-280 milljónir í stofnkostnað, en til að fá nákvæmari tölu er auðvitað eðlilegast að spyrja einhvern sem nýlega hefur byggt hótel og er til í að gefa upp tölur eins og t.d. eigendur Hótel Hamars við golfvöllinn í Borgarnesi. Helmingi minna hótel kostar auðvitað minna en gefur líka minni tekjumöguleika og er líklega óhagkvæmari rekstrareining. Hvort farið er út í slíkt verkefni ræðst að sjálfsögðu af því hvort einhverjir fást til að fjárfesta í hótelbyggingunni. Ég veit ekki til að heimamenn, einstaklingar eða fyrirtæki, hafi burði til að standa fyrir svoleiðis verkefni, sem er miður því það væri vænlegast til að af slíku ævintýri gæti orðið. Ef fjármagnið á að koma utan frá þarf að sannfæra fjárfestana með traustri rekstraráætlun um að þeir geti ekki með nokkru móti ávaxtað peningana sína með arðbærari hætti. Sú rekstraráætlun þarf um leið að vera trúverðug.
Þar liggur hnífurinn grafinn og hundurinn stendur í kúnni, eins og maðurinn sagði. Reksturinn á slíku hóteli yrði mjög erfiður nema menn komi inn með verulega góð sambönd við væntanlega viðskiptavini. Satt best að segja held ég að reksturinn á hóteli á Hólmavík yrði fyrstu árin svo erfiður fyrir utan sirka 65 daga á hverju sumri að það gæti meira að segja vel farið á hausinn þó að frúin í Hamborg gæfi manni peninginn fyrir stofnkostnaðinum. Ferðaþjónustan er mjög veikburða á Ströndum utan háannatíma, ekkert stórt þéttbýli er í grenndinni, staðir með flugvöllum sem flogið er til eru allir að reyna að markaðssetja sig sem ráðstefnu- og fundarstaði og sama gildir um flestöll hótel á Vestur- og Suðurlandi í 150 km radíus frá Reykjavík. Fjarlægðin frá höfuðborginni til Hólmavíkur verður áfram meiri en til þessara staða og malbikaður vegur um Arnkötludal breytir ekki öllu í því sambandi því þar er bara verið að tala um að jafna aðstöðuna við aðra. Eftir sem áður hefur Hólmavík ekkert sérstakt fram yfir fullt af öðrum stöðum sem eru nær markhópum sem slíkt hótel vill ná til 300 erfiða daga á ári hverju.
Útfærsluatriði eins og hvar væri heppilegast að slíkt hótel væri staðsett á Hólmavík og hvort það sé hægt eða skynsamlegt að nýta félagsheimilið og byggja gistiálmu við það er auðvitað hægt að ræða fram og aftur. Slíkar ákvarðanir bíða hins vegar eftir þeim sem fjárfesta og spekúlasjónir um það eru fyrst og fremst til gamans.
Við þurfum annað hvort kröftuga fjárfesta sem eiga svo margar milljónir að þá munar ekkert um að koma slíku verkefni á laggirnar eða framkvæmdabrjálaðan bjartsýnismann (sem er erfitt að finna meðal jarðbundinna Strandamanna). Það þarf mjög þolinmótt fjármagn og flestir fjárfestar eru ekki að leita eftir slíkum kostum. Auðvitað er sjálfsagt að hafa augun hjá sér eftir einhverjum sem getur látið slíka hluti gerast, en að mörgu leyti er samt óraunhæft að reikna með slíku hóteli næstu árin. Það er líka beinlínis háskalegt að líta á það sem lykilatriði eða einu lausnina í þróun ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Því held ég að við ættum ekki að einblína á Hótel Hólmavík sem lykilinn að þróun ferðaþjónustunnar, heldur einbeita okkur að verkefnum sem við ráðum við – því að þróa og bæta þjónustuna, byggja upp jákvæða ímynd af Ströndum, hlúa að og styrkja þau fyrirtæki sem þegar eru í rekstri og eru að gera góða hluti, vinna áfram markvisst að því að fjölga gestum sem heimsækja Strandir allt árið og síðast en ekki síst að taka vel á móti þeim sem koma. Því betur sem okkur gengur við það starf, því meiri verða líkurnar á að Hótel Hólmavík verði einhvern tíma að veruleika.
Jón Jónsson, Kirkjubóli