05/11/2024

Hrútaþuklið á sunnudaginn

Það verður stórhátíð í Sauðfjársetrinu í Sævangi kl. 14:00 á sunnudaginn 17. ágúst, en þá fer fram í sjötta skipti Meistaramót í hrútaþukli. Íþróttagreinin hefur smám saman náð almennri hylli landans síðan Sauðfjársetrið hóf að halda mótið árið 2003 og aðsókn hefur stöðugt aukist að atburðinum. Hrútaþuklið hefst við Sævang kl. 14:00. Nóg annað verður um að vera; andlitsmálning verður í boði fyrir yngstu kynslóðina, ókeypis verður inn á safnið og sýningu þess, ljúffengt kaffihlaðborð verður á boðstólum í kaffistofu setursins, skemmtiferðir verða farnar í dráttarvélavagni, lifandi tónlist mun óma um salinn og að sjálfsögðu verður farið í leiki á íþróttavellinum.

Hrútadómarnir sjálfir fara þannig fram að Jón Viðar Jónmundsson ráðunautur fer fyrir dómnefnd  sem metur fjóra íturvaxna hrúta með nútíma tækjum og tólum og raðar þeim í gæðaröð fyrirfram. Síðan reyna keppendur sig við matið á hrútunum með hendur og hyggjuvit að vopni og reyna að komast að sömu niðurstöðu og dómararnir. Þeir óvönu láta duga að raða hrútunum í sæti frá eitt til fjögur og færa rök fyrir máli sínu. Þeir vönu gefa hins vegar hrútunum stig fyrir einstaka þætti eins og t.d. bakbreidd, útlit og samræmi og fara þá eftir stigakerfi sem bændur gjörþekkja. Veglegir vinningar eru í boði fyrir sigurvegara í báðum flokkum og sigurvegari vana flokksins mun auk verðlauna fá afhentan farandgripinn "Horft til himins" sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar á Hólmavík.

Aðgangur að hátíðinni og safninu er ókeypis. Kaffi­hlaðborð kostar kr. 1.200.- fyrir fullorðna, kr. 600.- fyrir 6-12 ára og frítt fyrir yngri.

Vefur Sauðfjárseturs á Ströndum er www.strandir.saudfjarsetur.is/saudfjarsetur.