24/11/2024

Hringtenging ljósleiðara um Vestfirði á dagskrá

580-fostudagur4

Hringtenging ljósleiðara um Vestfirði virðist komin á dagskrá. Í fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var nú í desember er gerð tillaga um 300 milljóna tímabundið framlag til fyrsta áfanga framkvæmda við fyrirhugaða fjarskiptaáætlun. Í henni eru m.a. sett fram töluleg markmið um ljósleiðaravæðingu og uppbyggingu annarra fjarskipta á komandi árum. Það er Fjarskiptasjóður sem fær framlagið og gert er ráð fyrir að að um 200 milljónum af upphæðinni verði varið í verkefni sem snýst um að tengja ótengda staði og hringtengingar ljósleiðara á ákveðnum landssvæðum. Samkvæmt því sem fram hefur komið, m.a. á fundi þingmanna og sveitarstjórnarmanna á Reykhólum í haust, er hringtenging ljósleiðara um Vestfirði þar fremst í forgangsröðinni. Má því reikna með að ljósleiðari verði lagður um sunnanverðar Strandir næsta sumar, frá Brú í Hrútafirði til Hólmavíkur og jafnvel á Drangsnes. Síðan yrði hringnum lokað með lagningu ljósleiðara um Djúpið.

Framkvæmdin væri mikið framfaraskref fyrir Strandir sem hafa ekki verið tengdar ljósleiðarakerfinu til þessa.