22/12/2024

Hreinsunarátak í Strandabyggð

Men at workVikuna 18.-24. maí mun Strandabyggð standa fyrir hreinsunarátaki með íbúum sveitarfélagsins og er hugmyndin sú að íbúar taki saman höndum við fegrun og snyrtingu þannig að ásýnd sveitarfélagins verði hrein og snyrtileg fyrir Hvítasunnuhelgina. Starfsmenn áhaldahúss munu hirða rusl og garðaúrgang sem er settur út við lóðamörk í vikunni og kemur fram í fréttatilkynningu að mikilvægt sé að halda öllu járnarusli sér. Íbúar í dreifbýli geta haft samband við starfsmenn áhaldahúss vegna hreinsunar, en ekki er reiknað með að sækja rusl í miklu magni á sveitabæi.

Eigendur fyrirtækja og stofnana eru einnig hvött til að taka þátt í átakinu og koma úrgangi sjálfir á viðeigandi stað í samráði við starfsmenn áhaldahúss.  

Síðustu ár hefur verið ákveðinn hreinsunardagur og sameiginlegt grill á eftir, en nú var ákveðið að dreifa átakinu  á vikuna og að hafa ekkert grill vegna þess að vorið virðist ætla að láta bíða eftir sér.