Eftir rigninguna 2. júlí tók Hafdís Sturlaugsdóttir starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða eftir því að skriðan eða Hraunið fyrir ofan flugvöllinn á Kálfanesskeiði við Hólmavík hefur hreyfst töluvert. Hún fór síðan á vettvang og tók myndir og skoðaði ummerki daginn eftir og hefur hreyfingin orðið í innanverðri skriðunni, í áttina að Kálfanesi. Þorsteinn Sæmundsson náttúrufræðingur hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra staðfesti að þarna væri um hreyfingu á eldra berghlaupi að ræða. Þeir sem hafa tekið eftir þessu og vita hvenær þessi hreyfing hefur átt sér stað eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Hafdísi hjá Náttúrustofunni en hún er til húsa í Þróunarsetrinu á Hólmavík, netfangið er hafdis@nave.is.
Hraunið í Kálfanesfjalli – ljósm. Hafdís Sturlaugsdóttir