27/12/2024

Hraðakstur í nágrenni Hólmavíkur

Í vikunni sem var að líða var tilkynnt um þrjú umferðaróhöpp til lögreglunnar á Vestfjörðum. Mánudaginn 21. mars valt bíll í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi. Ökumaður var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Ísafirði, en um minni háttar meiðsl var að ræða. Bifreiðin var óökuhæf og flutt af vettvangi með krana.
Miðvikudaginn 23. mars ók bíll á ljósastaur í Bæjarbrekkunni á Ísafirði, farþegi kenndi sér eymsla og fór á sjúkrahúsið til skoðunar. Föstudaginn 25. mars var ekið utan í hjólreiðamann á Mánagötu á Ísafirði. Um minni háttar meiðsl var að ræða.

Þrír voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í vikunni í nágrenni við Hólmavík, sá sem hraðast ók þar var mældur á 114 km/klst, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.  Að öðru leyti gekk umferð vel í umdæminu í liðinni viku.

Sunnudaginn 27. mars var kveikt í strætisvagnaskýli við Hreggnasa í Ísafjarðarbæ. Ekki var um miklar skemmdir að ræða og telst málið upplýst, um var að ræða unga dregni sem þar voru að verki. Skemmdir voru unnar í anddyri á húsi við Aðalstræti á Ísafirði um helgina, ekki er vitað hver/hverjir þar voru að verki.

Lögregla vill koma því á framfæri að undanfarið hefur borið á því að ungir ökumenn hafa verið  með glannaakstur á hafnarsvæðinu á Ísafirði. Vart þarf að fjölyrða um það hvað gæti komið þar fyrir og vill lögregla biðja foreldra og forráðamenn ungra ökumanna að brýna fyrir börnum sínum, sem komin eru með ökuréttindi, hættuna sem af þessu getur stafað.