22/12/2024

Hólmavík er best verður Hamingjulagið í ár

Í gær var haldin mikil dægurlagasamkeppni á Hólmavík þar sem Hamingjulagið í ár var valið, en keppnin er haldin vegna Hamingjudaga á Hólmavík í sumar. Fjögur bráðskemmtileg lög kepptu um titilinn á kvöldskemmtun þar sem lögin voru flutt og völdu áhorfendur það lag sem féll þeim best í geð. Einnig voru sigurlögin frá fyrri árum flutt á skemmtuninni. Leynd hvíldi yfir lagahöfundum þangað til atkvæðagreiðslu og talningu var lokið. Sigurvegari árið 2007 varð Arnar S. Jónsson sem flutti eigið lag og texta í gamansömum dúr undir heitinu Hólmavík er best. Myndirnar hér að neðan tók fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is á skemmtuninni og fleiri (og betri) myndir má nálgast á vefsíðu Ingimundar Pálssonar á Hólmavík.

580-hamingjulag8

Agnes Jónsdóttir og Jón Gústi Jónsson fluttu lagið Hvern dag á Hólmavík. Lagið gerðu Jón Gústi og Jón Örn Haraldsson, en Harpa Hlín Haraldsdóttir samdi textann.

580-hamingjulag7

Ásdís Jónsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir fluttu lagið Galdraþorpið. Ásdís gerði lagið og textann samdi hún ásamt Dagrúnu Ósk Jónsdóttir. Ásdís er móðir Arnars sem sigraði í keppninni og amma Agnesar, Jóns Gústa, Jóns Arnar, Hörpu Hlínar og Dagrúnar Óskar, sem áður hafa verið nefnd, þannig að óhætt er að segja að hún hafi lagt töluvert af mörkum til keppninnar þetta árið.

580-hamingjulag6

Arnar S. Jónsson flytur eigið lag og texta, Hólmavík er best. Í laginu sem er einfalt, grípandi og hressilegt er gert góðlátlegt grín að ýmsum þéttbýlisstöðum víða um land og var það húmor sem féll áhorfendum greinilega vel í geð.

580-hamingjulag5

Jón H. Halldórsson er ómissandi á söngskemmtunum og lagakeppnum í héraðinu, en hann flutti eigið lag sem bar nafnið Hólmavík. Textinn var eftir Pétur Stefánsson.

580-hamingjulag11

Arnar fékk góðan stuðning áhorfenda í salnum og fór Brynjar Freyr Arnarsson fyrir stuðningsmannahópnum.

580-hamingjulag9

Stemmningin var heimilisleg og hér slappa nokkrir keppendur af á hliðarlínunni í salnum og bíða úrslitanna.

580-hamingjulag10

Menn mættu prúðbúnir á skemmtunina eins og venja er, hér ganga Margrét og Eyrún í salinn.

580-hamingjulag4

Kristján Sigurðsson flytur sigurlagið frá 2005, Hamingjudagar á Hólmavík.

580-hamingjulag2

Bjarni Ómar Haraldsson og Aðalheiður Lilja Bjarnadóttir syngja sigurlagið frá því í fyrra – Á Hamingjudögum. Það er eftir Daníel Birgi Bjarnason sem var 12 ára þegar hann samdi lagið.

580-hamingjulag3

Arnar tekur við verðlaununum.

580-hamingjulag1

Hópur flytjenda og höfunda – í rauðu ljósunum.

ljósm. Jón Jónsson