30/10/2024

Hólmadrangur hampaði Viskubikarnum

HólmadrangurÁ sunnudaginn fylgdust Strandamenn með æsispennandi lokabaráttu í Spurningakeppni Strandamanna 2006. Stóð baráttan milli þeirra fjögurra liða sem eftir stóðu eftir 12 liða keppni sem hófst í febrúar. Keppnirnar voru allar hnífjafnar og réðust úrslit í þeim öllum í síðustu spurningum. Í fyrri umferð sigruðu Strandamenn í Kennaraháskóla Íslands lið kennara við Grunnskólann á Hólmavík og starfsmenn Hólmdrangs sigruðu Leikfélag Hólmavíkur. Báðum viðureignunum lauk með eins stigs mun. Í úrslitaviðureigninni sigraði svo Hólmadrangur Strandamenn í KHÍ 17-14, en úrslitin réðust í síðari vísbendingaspurningunni.

Fyrir utan heiðurinn hlutu þeir Viskubikarinn að launum til varðveislu í eitt ár og vegleg bókaverðlaun ásamt páskaeggi.

Umsjónarmenn spurningakeppninnar í ár voru þau Jón Jónsson spyrill, Ester Sigfúsdóttir, Kristján Sigurðsson og Matthías Lýðsson, auk þess sem fjölskyldur þeirra og Svanhildar Jónsdóttur komu að undirbúningnum. Í lok keppninnar var tilkynnt að Arnar Snæberg Jónsson hefði tekið að sér hlutverk spyrils á næsta ári.