01/01/2025

Hollvinasamtök Borðeyrar tekin til starfa

Stofnfundur Hollvinasamtaka Borðeyrar var haldinn á Borðeyri fyrir nokkru og fór mæting og þátttaka fram úr björtustu vonum aðstandenda. 26 skráðu sig í samtökin á stofnfundinum og auk þess höfðu 16 einstaklingar haft samband fyrir fund og beðið um að láta skrá sig félaga, þannig að samtökin fara vel af stað. Fundarstjóri á stofnfundinum var Georg Jón Jónsson á Kjörseyri og ritari Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir á Kollsá II. Samþykktir fyrir samtökin voru samþykkt með lítilsháttar breytingum, en í þeim kemur fram að markmið Hollvinasamtaka Borðeyrar sé "að hlú að og efla Borðeyri með uppbyggingu og sögu staðarins að leiðarljósi."

Í stjórn Hollvinasamtaka Borðeyrar (kosin til 2 ára) voru eftirtaldir:

Guðni Þórðarson, Tungu, Svínadal.
Lárus Jón Lárusson, Brekkukoti, Borðeyri.
Bjarni Benediktsson frá Kollsá, búsettur í Reykjavík.
Heiðar Þór Gunnarsson, Hlíðarhúsi, Borðeyri
Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir, Kollsá II.

Varamenn (kosnir til 2 ára)

Oddný Ásmundsdóttir, Sjónarhóli, Borðeyri.
Ólafur Hjálmarsson, ættaður frá Hlaðhamri, búsettur í Kópavogi.

Nýkjörin stjórn mun síðan skipta með sér verkum á fyrsta fundi sínum.

Það eru margir sem hafa lýst yfir ánægju sinni með stofnun Hollvinasamtaka Borðeyrar og vænta góðs af þeim. Hollvinasamtökin eru einnig á Facebook og verða samþykktirnar settar þar inn og þar gefst möguleiki á að skrá sig í samtökin.