22/12/2024

Hóf er best í hverju máli

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Einu sinni heyrði ég Steingrím Hermannsson lýsa stefnu Framsóknarflokksins sem svo, að flokkurinn væri hófsamur, frjálslyndur og umbótasinnaður félagshyggjuflokkur. Það þótti mér góð lýsing, kannski vegna þess að hún er mér mjög að skapi. Nafnorð með þremur lýsingarorðum sem hægt er að lýsa svona:
 
Nafnorðið vísar til þess að manngildi sé ofar auðgildi, að almennir hagsmunir séu einstaklingshyggjunni framar, að maður sé annars félagi og því fylgi ábyrgð og skyldur. Félagshyggjumaðurinn viðurkennir ekki að sú hegðun sé eðlileg að einblína einvörðungu á eigin hag og hafnar því að réttlætanlegt sé að beita öllum ráðum sjálfum sér til ávinnings. 

Umbótasinnaður er sá sem vill sækja fram almenningi til hagsbóta og vill takast á það verkefni, sem oft og tíðum reynist erfitt, að breyta því sem er. Fastheldni og ótti við hið óþekkta eru þung í taumi þeirra sem vilja breyta, enda er íhaldssemi manninum eðlislæg. Umbótasinnaður maður sækir fram og er að yfirveguðu ráði reiðubúinn að breyta, en er jafnframt gætinn og varast byltingar.
 
Frjálslyndur er ekki fastur í einum sannleika, er tilbúinn að heyra önnur viðhorf, virða þau og taka tillit til þeirra, jafnvel þótt hann sé þeim ósammála. Frjálslyndur er umburðarlyndur.
 
Hófsamur lýsir því að forðast að ganga langt, vilja samkomulag,vilja niðurstöðu sem er á þann veg að sem flestir eigi hlut í henni, hófsamur sækir sinn hlut í hófi og skilur eftir svigrúm fyrir aðra.
 
Undanfarin ár hafa orðið miklar breytingar á íslensku þjóðfélagi. Þær hafa náð til einkavæðingar ríkisfyrirtækja og þjónustu, fjármálamarkaðar og gífurlegrar eignamyndunar einstaklinga í sjávarútvegi og viðskiptalífinu. Ríkið hefur hrundið af stað stærstu framkvæmdum Íslandssögunnar með stóriðju og tilheyrandi virkjunum. Byggðaröskun hefur slegið fyrri met á sumum svæðum landsins.
 
Breytingarnar hafa verið róttækar og gengið hratt yfir. Einstaklingsmiðuð ábatafíkn hefur krafist viðurkenningar og siðferðilegrar réttlætingar. Enginn skortur hefur verið á málsbótarmönnum græðginnar sem veifa aflátsbréfum fyrir óhófið. Mönnum sem réttlæta sniðgöngu frá skatti með öllum tiltækum ráðum, mönnum sem eignast milljarða króna á fáum árum og finnst að heimurinn eigi þeim mikið að þakka fyrir snilldina.
 
Það hefur í raun skort jafnvægið, það þarf að hægja á hraðanum. Breytingarnar eru flestar í rétta átt, en það vantar frekari umferðareglur til þess að koma böndum á frumskógarhegðunina áður en lengra er haldið. Hægja á einkavæðingunni og stóriðjunni og auka jöfnuð í þjóðfélaginu. Vinna úr þeim breytingum sem orðið hafa. Það þarf meiri félagshyggju, meira umburðarlyndi og meiri hófsemi. Það þarf að sýna meira af framsóknarstefnunni sem Steingrímur Hermannsson lýsti.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins
www.kristinn.is