23/12/2024

Hin heimska hönd hagræðingarinnar

Grímur AtlasonGrein eftir Grím Atlason
Stór fundur var haldinn í Dalabúð í vikunni. Sauðfjárbændur boðuðu til fundarins með stuttum fyrirvara en ljóst af fundarsókninni að dæma að ekki var vanþörf á. Niðurstaða fundarins var skýr. Vextir í þessu landi eru auðvitað út úr öllu korti. Afurðarverð til bænda er í besta falli lélegt en í ljósi fákeppni á matvörumarkaði er lítil von á breytingum nema með verulegum aðgerðum sem fælist í þungi í stað hjómkenndra óska fluguvigtarráðherra.

Það er með ólíkindum að þegar hrávara hækkar í heiminum, og matvæli þar ekki síst, skuli það vera bændur á Íslandi sem taki á sig skerðinguna einir framleiðenda. Ekki nóg með að vaxtakostnaður og innkaupakostnaður hækki um tugi prósenta hjá þessari stétt heldur þurfa þeir líka að sætta sig við litla sem enga hækkun afurðaverðs.

Hvað er til ráða? Núverandi kerfi er ekki að skila því sem til stóð (nema það hafi staðið til að festa bændur í fátækragildru). Hagræðing á sláturmarkaði hefur ekki skilað sér í hærra verði til bænda og óttaáróðurinn hefur heldur engu skilað. Það sem hefur gerst er að ríkið er að borga minna og minna í greinina og bændum hefur fækkað verulega sl. áratug. Árið 1998 greiddi ríkið rúma 13 milljarða til landbúnaðarins á móti rétt um 11 milljörðum í dag á föstu verðlagi. Þetta þýðir í raun kjaraskerðingu sem mér er til efs að nokkur önnur stétt myndi láta bjóða sér tímabundið hvað þá um langt árabil. Það má heldur ekki gleyma að bændur skila þessu margfalt til baka í ríkiskassann. Beinir skattar og virðisauki af framleiðslunni – verðmæti fyrir þjóðina alla.

Bændur hafa því miður orðið undir í áróðursstríðinu. Þeir ku vera baggi á þjóðfélaginu og menn sjá ofsjónum yfir svokölluðum niðurgreiðslum til þeirra en þær renna reyndar beint til neytenda. Þetta er ekkert annað en afskræming á staðreyndum. Rétt eins og sumir íbúar á höfuðborgarsvæðinu sjá ofsjónum út af vegagerð, jöfnunarsjóðsgreiðslum, menningarsjóðum og öðru sem fer fram utan 50 kílómetra radíus höfuðborgarinnar.

Hlutirnir eru bara kallaðir svo mörgum nöfnum. Hvað ætli Íslendingar hafi kostað miklum fjármunum úr sínum sameiginlegu sjóðum frá aldamótunum þar síðustu til uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu? Hvað ætli stór hluti útflutningstekna okkar hafi orðið eftir þar á meðan upprunasvæði auðsins fékk leifarnar? Uppbygging sjúkrahúsa, skóla, hafna, flugvalla, raforkukerfis, vegakerfis, fjarskiptakerfis, leikhúsa, stóriðju, íþróttamannvirkja, stjórnsýslu o.fl. o.fl. Fjármunir settir í þessi verkefni hafa aldrei verið kallaðir niðurgreiðsla heldur fjármunir til uppbyggingar.

Hér er auðvitað um rökrétta þróun mála að ræða en þó ekki í einu og öllu. Hvað sem áróðursvélin segir að þá hallar verulega á ýmis svæði og þjóðfélagshópa. Það er smánarlegt að ekki skuli verið búið að koma fjarskiptum og raforkumálum í lag á landsbyggðinni og vegakerfinu sömuleiðis. Eignir ríkisins eru viðhaldslausar víða út um land og ekki hægt að bera þær saman við eignir ríkisins á höfuðborgarsvæðinu. Sameiginlegir sjóðir okkar hafa svo sannarlega verið notaðir til þess að ljúka þeim málum á vel völdum stöðum. Á meðan hægagangurinn er staðreynd held ég að þeir sjá ofsjónum yfir brotabroti af sameiginlega sjóðnum í landbúnað ættu að finna sér nýtt áhugamál. Það þyrfti að stórauka fjármagn til uppbyggingar og greiðslur til íslensks landbúnaðar eru auðvitað ekkert annað en fjárfesting til framtíðar fyrir okkur öll.

Síðustu árin hefur hin heimska hönd hagræðingarinnar tekið öll völd. Þessi hönd sér ekki lengra en til  hádegis næsta dag. Henni þykir skynsamlegast að loka fyrir þjónustu á þeim stöðum sem fáir nýta sér hana. Hún segir að best að gera sem minnst í landbúnaðarkerfinu og fækka þannig í greininni. Já, höndin er heimsk og einföld. Hverju skilar þetta? Viljum við að matvæli verði framleidd áfram í þessu landi? Viljum við að byggð verði blómleg eða er betra að fá alla í blokk á Rauðavatnssprungunni?

Auðvitað geta stjórnvöld ekki notað töfrasprota á allt – landsbyggðarfólk og aðrir þurfa að breyta um taktík og hugsa fram á við með bjartsýni og af krafti líka. Það kostar að reka landbúnað á Íslandi. Það kostar líka að reka höfuðborg og samfélag. Það er óréttlátt ef sátt á aðeins að vera um rekstur höfuðborgarinnar en hinir geti étið það sem úti frýs. Það er líka heimskt og skilar vondri niðurstöðu á efnahagsreikningnum seinna meir.

Það er hreinlega fáviska að þrengja meira að landbúnaði í landinu. Fyrir utan að sjá okkur fyrir frábærum matvælum þurfum við á honum að halda til að viðhalda menningu, sögu og sjálfstæði þjóðarinnar. Það er alveg ljóst að fara þarf í algjöra endurskoðun á kerfinu, en það er líka ljóst að íslenskur landbúnaður þarf umtalsvert meiri stuðning en nú er veittur. Hér er ekki aðeins verið að tala um fjármuni frá ríkinu heldur líka stuðning þjóðarinnar allrar. Hættum að leggja íslenskan landbúnað í einelti og sýnum honum þann sóma sem honum ber. Við verðum öll ríkari fyrir vikið.

Grímur Atlason, sveitarstjóri í Dalabyggð