Heyskapur í Bæjarhreppi hefur farið hægt af stað þetta sumarið. Tíðarfarið hefur verið frekar óhagstætt það sem af er sumri. Maímánuður var mjög kaldur, næturfrost nótt eftir nótt fram eftir mánuðinum og svo kom júní þar sem varla kom dropi úr lofti. En eftir að fór að rigna síðla júní, þá hefur verið dálítið votviðrasamt. Sprettan er víðast orðin nokkuð góð og hafa menn á flestum bæjum hér í hreppnum hafið slátt en orðið að sæta lagi á milli skúra. Spáin er góð fram eftir vikunni og væntanlega spretta bændur úr spori og heyja allt hvað af tekur næstu daga.
Bændur á Valdasteinsstöðum að heyja Lyngholtstún – ljósm. Sveinn Karlsson