22/12/2024

Helstu verkefni lögreglunnar í síðustu viku

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um helstu verkefni í síðustu viku, kemur fram að vikan einkenndist af risjóttu veðurfari og tengdust mörg verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum erfiðri færð. Fáir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur enda akstursaðstæður yfirleitt slæmar. Fjórtán umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Á þriðjudeginum valt bifreið við Kolbeinsá í Hrútafirði og skemmdist bifreiðin mikið en ökumaður slapp án meiðsla.

Á þriðjudeginum var bifreið einnig ekið á ljósastar á Skutlulsfjarðarbraut á Ísafirði. Bifreiðin skemmdist mikið en ekki urðu slys á fólk. Á miðvikudeginum valt bifreið á Súðavíkurhlíð upp fyrir veg og skemmdist talsvert en ökumann sakaði ekki. Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Óshlíðarvegi á fimmtudagsmorgninum.  Bifreiðin lenti á grjótvörnum fyrir ofan veg en stöðvaðist síðan á vegriði neðan við veginn, þar sem nokkuð hátt er í sjó fram. Önnur óhöpp voru minniháttar og öll voru þau slysalaus.

Einn aðili gisti fangageymslur á Ísafirði aðfaranótt sunnudags eftir að hafa verið handtekinn fyrir ölvun og óspektir við veitingahús í bænum. 

Í vikunni var tvisvar sinnum var hafin eftirgrennslan vegna fólks sem ekki hafði skilað sér heim á tilsettum tíma. Í báðum þessum tilfellum hafði lögreglan upp á viðkomandi aðilum sem höfðu fest farartæki sín í snjó á fjallvegum. Ekki kom til þess að kalla þyrfti út björgunarsveitir af þessu tilefni.

Fréttatilkynning: Lögreglan á Vestfjörðum
Ljósmynd af bíl sem velti við Kolbeinsá:
www.sgverk.com