22/12/2024

Helstu verkefni lögreglunnar í liðinni viku

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku kemur fram að að í vikunni 17.-23. nóvember voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum en annar þeirra ók um Hnífsdalsveg á 114 km hraða en þar er hámarkshraði 80 km/klst. Eitt umferðaróhapp var tilkynnt, en það var minniháttar árekstur innanbæjar á Patreksfirði. Í lok vikunnar voru þrír ökumenn stöðvaðir fyrir meintan akstur undir áhrifum fíkniefna. Tveir þeirra voru á ferð á Ísafirði en einn var stöðvaður á Patreksfirði. 

 Á fimmtudaginn var óskað aðstoðar björgunarsveitarinnar Kóps á Bíldudal vegna rjúpnaskyttu sem hafði villst.  Maðurinn var í símasambandi við björgunarsveitarmenn sem náðu að finna manninn og aðstoða hann við að komast niður af fjöllum en þarna voru klettabelti og brattar fjallshlíðar sem voru hættulegar yfirferðar.