30/10/2024

Helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku kemur fram að þau tengdust flest umferðarmálum. Í síðustu viku var veður slæmt  og setti það mark sitt á umferðina. Á fimmtudaginn fauk pallhús af bifreið sem var á leið um Kirkjubólshlíð í Skutulsfirði. Ökumaður gat haldið áfram för sinni en pallhúsið sást síðar á floti í sjónum þarna skammt frá en ekki var hægt að nálgast það vegna veðurs. Fimm ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur og voru þeir allir á ferð um norðanverða Vestfirði. Sá sem hraðast ók var mældur á 114 km hraða á veginum um Súgandafjörð.    

Í vikunni var eigendum 46 bifreiða gefinn sjö daga frestur til að færa þær til skoðunar. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af 6 bifreiðum vegna vanrækslu á skoðun. Um þessar mundir hefur lögreglan verið með sérstakt átak vegna óskoðaðra ökutækja. Þá hafa skráningarnúmer verið fjarlægð af þeim bifreiðum sem ekki hafa ábyrgðartryggingu í lagi.

Föstudaginn kl. 16:30 var tilkynnt um að ökumaður hafi fengið aðsvif undir stýri og bifreið hans endað inni í húsagarði í Bolungarvík. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús vegna veikinda sinna en barn sem var með honum í bifreiðinni sakaði ekki. Bifreiðin hafði farið stjórnlaus í gegnum grindverk og húsagarða fjögurra húsa milli Hafnargötu og Miðstrætis og endað för sína talsvert skemmd á snúrustaurum.

Sérstakt átak var í vikunni gegn ölvunarakstri. Um helgina voru settir upp sértakir eftirlitspóstar á þéttbýlisstöðum þar sem öll umferð var stöðvuð og ástand ökumanna kannað. Í stærstu bæjunum, Ísafirði og Bolungarvík, voru 151 ökumaður stöðvaður í þessu átaki um helgina og létu 112 þeirra í té öndunarpróf til að kanna með ástand þeirra. Á Patreksfirði og Tálknafirði voru 35 bifreiðar stöðvaðar í sama tilgangi og á Hólmavík var eftirlit með svipuðu sniði. Það er ánægjulegt að segja frá því að ekki reyndist þörf á frekari afskiptum af þessum ökumönnum og var ástand þeirra gott.