Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum um helstu verkefni síðustu viku kemur fram að í vikunni voru þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Vestfjörðum. Sá sem hraðast ók var stöðvaður á 105 km. hraða á Óshlíðarvegi þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt í vikunni. Á mánudeginum var bifreið ekið út af veginum sem liggur á milli Bíldudals og Ketildala. Ökumaður mun hafa misst stjórn á bifreiðinni og er talið að holur í malaryfirborði vegarins hafa átt þátt í því hvernig fór. Bifreiðin hafnaði í vegrás ofan við veginn talsvert skemmd en engan sakaði við óhappið.
Þá fór bifreið út af veginum um Hestfjörð á miðvikudaginn. Ökumaður var einn í bifreiðinni og var hann fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Ísafirði en var ekki talinn mikið slasaður. Bifreiðin var mikið skemmd og óökuhæf eftir óhappið.
Aðfaranótt fimmtudagsins var brotist inn í bifreið sem stóð í vegarkanti Djúpvegar, sunnanmegin í Skötufirði. Rúða var brotinn í bifreiðinni og farsíma, útvarpi og öðrum munum stolið. Ekki er vitað hverjir voru þar á ferð og eru allar upplýsingar um málið vel þegnar.
Á fimmtudaginn var tilkynnt um sokkinn bát við bryggjuna á Bíldudal. Talið er að tæring á hafi orðið til þessa að sjór komst í bátinn og sáu eigendur bátsins um björgunaraðgerðir.
Einn ökumaður var stöðvaður á Patreksfirði á sunnudagskvöldið vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.